Lagði utanvegar rétt við bílastæði

Á myndinni má sjá bíl landvarðar, sem lagt er á …
Á myndinni má sjá bíl landvarðar, sem lagt er á bílastæði, og svo fólksbílinn sem er það ekki. Ljósmynd/Aðsend

Landverðir í Vatnajökulsþjóðgarði höfðu á fjórða tímanum afskipti af ferðamanni sem ók utan vegar og lagði bíl sínum steinsnar frá bílastæði við Jökulsárlón. Á ljósmynd sem mbl.is fékk senda má sjá glitta í hjólförin sem bíllinn skildi eftir sig og eiga sennilega eftir að sjást í allt sumar og jafnvel lengur.

Hlynur Þráinn Sigurjónsson, yfirlandvörður á suðursvæði þjóðgarðsins, segir í samtali við mbl.is að mál sem þessi séu því miður algeng, og jafnvel tilfelli sem þessi þar sem ökumaður leggur rétt utan við skilgrieint bílastæði. 

„Stundum fáum við leiðinlegan utanvegaakstur þar sem fólk nennir ekki að leggja bílnum á bílastæðinu. Ég man eftir einum sem vildi fá að vera út af fyrir sig því honum fannst of mikið af bílum á bílastæðinu,“ segir Hlynur.

Hann segir þó að vitanlega hafi dregið úr utanvegaakstri síðustu mánuði á sama tíma og ferðamönnum á svæðinu hefur fækkað til muna. 

„Það hefur varla verið nokkur umferð um garðinn upp á síðkastið,“ segir Hlynur.

Þjóðgarðsverðir hafa sjálfir ekki sektarheimild en þeir kalla ýmist til lögreglu eða fylla út sérstaka skýrslu og senda á lögreglu, sem sér um sektir.

mbl.is