Gætum endað með sömu tölu og Svíar

Frá blaðamannafundi almannavarna.
Frá blaðamannafundi almannavarna. Ljósmynd/Lögreglan

„Það eru margir sem vilja ekki fara þá leið og við erum held ég þar. Við höfum kosið að gera þetta öðruvísi,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir þegar hann var spurður út í „sænsku leiðina“ í baráttunni við kórónuveiruna á blaðamannafundi í dag.

Í viðtali við Læknablaðið sem kom út í gær sagði Þórólfur að það hefði verið erfitt að lifa með því ef íslenska heilbrigðiskerfið hefði verið gjörsamlega keyrt í kaf vegna kórónuveirufaraldursins. Andlátin hér á landi hefðu orðið 70 ef miðað er við „sænsku leiðina“

Þórólfur sagði að þetta snerist um hvaða nálgun fólk vilji. 

Vilja menn fá faraldurinn hratt yfir sig og ná þessu ónæmi í samfélaginu og borga fyrir það með sjúkdómi, veikindum, innlögnum á spítala og andlátum,“ sagði Þórólfur og bætti við að þetta væri bara ákveðin nálgun og ekkert við því að segja.

„Munum við á endanum enda með sömu tölu og Svíar? Það kann vel að vera en þá er alla vega búið að dreifa því á miklu, miklu lengri tíma með minni skaða fyrir spítalakerfið og samfélagið.“

Hann benti enn fremur á að hér á landi hefðu ekki verið jafn miklar takmarkanir vegna faraldursins og víða annars staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert