Hvetja til skimunar fyrir ME-sjúkdómnum

Helstu áhættuþættir fyrir ME-sjúkdóminn eru slæmar veirusýkingar.
Helstu áhættuþættir fyrir ME-sjúkdóminn eru slæmar veirusýkingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn ME-félags Íslands lýsir yfir áhyggjum vegna mögulegrar aukningar á ME-sjúkdómnum í kjölfar kórónuveirufaraldursins, en helstu áhættuþættir fyrir sjúkdómnum eru slæmar veirusýkingar.

Í tilkynningu frá félaginu segir að afar mikilvægt sé að ME-sjúklingar eigi kost á snemmbærri greiningu og réttri meðferð til að fyrirbyggja frekari veikindi og hvetur félagið heilbrigðisyfirvöld til að koma á skimun fyrir ME hjá þeim sjúklingum sem sýna einkenni örmögnunar því ME-sjúklingar þoli ekki sömu meðferðir og aðrir sjúklingahópar með mikil þreytueinkenni.

„ME sjúklingar á Íslandi eiga þess almennt ekki kost innan íslenska heilbrigðiskerfisins að fá rétta greiningu og meðferð. Í stað þess að skimað sé fyrir ME með þeirri greiningaraðferð sem helstu vísindamenn í læknavísindum mæla með [...] fá ME sjúklingar rangar greiningar eins og t.d. vefjagigtargreiningu og/eða þunglyndisgreiningu og fá í kjölfarið rangar meðferðir eins og fyrirmæli um að hreyfa sig meira og leggja meira á sig, geðlyf, hugræna atferlismeðferð og/eða aðrar hugrænar meðferðir.“

Þá sé algengt að líðan ME-sjúklinga versni verulega við rangar meðferðir og að þeir verði jafnvel óvinnufærir eða þurfi að hætta námi.

„Við hvetjum ráðamenn til að sjá til þess að gerðar verði úrbætur á greiningum og meðferðum ME sjúkra. Úrbætur sem hafa það að markmiði að börnum og fullorðnum ME sjúklingum verði hlíft við meðferðum sem eiga ekki við þeirra sjúkdóm og að boðið verði  uppá meðferðir og heilsugæslu, sem að viðurkenndar rannsóknir hafi sýnt að geti borið einhvern árangur.  Öllum sjúklingum ætti að standa til boða að læra virkniaðlögun sem hefur reynst mörgum ME sjúklingum vel til að ná betri lífsgæðum.“

ME er skammstöfun á Myalgic Encephalomyelitis en „myalgic“ stendur fyrir vöðvaverki og „encephalomyelitis“ fyrir bólgur í heila eða mænu. Á íslensku hefur sjúkdómurinn stundum verið kallaður síþreyta sem er þýðing á enska heitinu Chronic Fatigue Syndrome (CFS). Það heiti hefur lengstum verið notað erlendis og þá aðallega í Bandaríkjunum þar sem það varð til. Sjúklingar hafa viljað breyta þessari nafngift þar sem síþreyta er í raun aðeins eitt af fjölmörgum einkennum ME og nægir ekki til að gera grein fyrir sjúkdómnum og alvarleika hans, að því er segir á vef félagsins.

Nánari upplýsingar um sjúkdóminn er að finna á vefsíðu ME-félagsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert