„Kaldastríðssérvitringar“ í veg fyrir uppbyggingu

Ásmundur Friðriksson.
Ásmundur Friðriksson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, undrast að sveitarstjórnir á Suðurnesjum hafi ekki lagt áherslu á uppbyggingu Atlantshafsbandalagsins á svæðinu. 

Í aðsendri grein í Víkurfréttum segir hann að þingmenn Suðurkjördæmis hafi óskað eftir stuðningi sveitarstjórnanna við að þrýsta á ríkisstjórnina um að koma málinu á framkvæmdastig.

„Ekkert svar hefur komið frá bæjarstjórnunum en hafnarstjórn Reykjaneshafnar hefur þó sýnt dug og djörfung og bókað um málið. Stuðningur hafnarstjórnarinnar skiptir máli en dugar skammt þegar bæjarstjórnir draga lappirnar í 12-18 milljarða króna atvinnuuppbyggingu en hafa skal í huga að engum öðrum landhluta stendur til boða önnur eins framkvæmd í tugprósenta atvinnuleysi,“ skrifar Ásmundur og bætir við að þetta hafi alveg farið fram hjá þeim sem enn berjast fyrir því að Ísland gangi úr Nató.

„Það er einmitt þessi fámenni sértrúarsöfnuður sem vill koma í veg fyrir tugmilljarða framkvæmdir mitt í öllu atvinnuleysinu á Suðurnesjum. Ég spyr því sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum: Er það virkilega svo að örfáir kaldastríðssérvitringar, sem eiga gamla gönguskó úr Keflavíkurgöngunum, eiga óáreittir að fá að koma í veg fyrir risa atvinnuuppbyggingu þegar atvinnuleysið er tæplega 30% á Suðurnesjum? Ætla bæjarstjórnir á svæðinu að láta það yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust?“ skrifar þingmaðurinn.

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs í Reykjanesbæ og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði við mbl.is í dag að sveitarstjórnin sé ekki svekkt yfir því að áformin hafi strandað á andstöðu Vinstri grænna við málið.

Hann sagði umræðuna aldrei hafa farið formlega í gang hjá sveitarfélaginu enda hefði það þurft að fá það erindi inn á borð til sín frá ríkisstjórninni.

mbl.is