Olíumengaður jarðvegur fannst í Elliðaárdal

Olíuslys á þessum stað getur verið grafalvarlegt mál fyrir viðkvæmt …
Olíuslys á þessum stað getur verið grafalvarlegt mál fyrir viðkvæmt lífríkið í dalnum og ánum og var því brugðist hratt við. mbl.is/Valli

Við framkvæmdir í Elliðaám í vikunni kom verktaki á vegum Veitna niður á mannvirki í jörðinni sem ekki var vitað af við Réttstöðvarveg skammt frá lagnastokknum sem liggur neðarlega í dalnum. Talið er að um gamlan steyptan olíutank sé að ræða og þar var mikill olíumengaður jarðvegur í aðeins 15 til 20 metra fjarlægð frá árbakka Elliðaáa.

Vitað var að á þessu svæði gæti mögulega fundist mengaður jarðvegur en ekkert í líkingu við það magn er fannst,“ segir í tilkynningu á vef Veitna.

Þar segir jafnframt að olíuslys á þessum stað geti verið grafalvarlegt mál fyrir viðkvæmt lífríkið í dalnum og ánum og að því hafi verið brugðist hratt við og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur kallað á staðinn. Stangveiðifélagi Reykjavíkur, sem á ríkra hagsmuna að gæta í Elliðaám, var gert viðvart um fundinn sem og Fiskistofu og Hafrannsóknastofnun.

Á fimmtudag var unnið að því að koma olíumenguðum jarðveginum frá svæðinu undir stjórn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem stýrir aðgerðum á vettvangi. Starfsfólk Veitna veitir alla þá aðstoð og stuðning sem þörf er á en innihald tanksins er flutt í Sorpu sem sér um förgun þess. 

„Veitur hafa í sumar lagt lagnir yfir Elliðaárdal og undir Elliðaár. Þessum framkvæmdum hafa fylgt ítarlegir skilmálar frá Hafrannsóknastofnun og hefur þeim verið fylgt vel eftir sem og fyrirmælum um vinnu við vatnsverndarsvæði. Starfsfólk Veitna, verktakar og eftirlitsaðilar með verkinu brugðust því hratt og rétt við þegar tankurinn, og það sem í honum er, kom í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert