Mótmæla smáhýsum við Stórhöfða

Fyrirhuguð smáhýsi sæta gagnrýni.
Fyrirhuguð smáhýsi sæta gagnrýni. Kort/mbl.is

Skipulagsfulltrúa Reykjavíkur bárust alls 19 umsagnir vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi við Stórhöfða þar sem fyrirhugað er að reisa þrjú smáhýsi fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs borgarinnar.

Athugasemdirnar voru frá íbúum og íbúasamtökum, fyrirtækjum og hagsmunaaðilum á svæðinu. Skemmst er frá að segja að allar umsagnirnar nema ein voru neikvæðar. Íbúar í nágrenninu telja að áformin komi niður á notkun á vinsælum göngustíg meðfram Stórhöfða en fasteignaeigendur telja að þau rýri verðgildi eigna sinna og trufli starfsemi fyrirtækja. Þá er sömuleiðis kvartað yfir skorti á kynningu.

Trufli kaffihús og veitingastað

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir 40 bílastæðum á því svæði sem um ræðir. Bílastæðin hafa þó ekki komið til framkvæmda og er svæðið ónotað og grasi vaxið. Gert er ráð fyrir allt að þremur smáhýsum á lóðinni. Húsin eru allt að 35 fermetrar að stærð en auk þess er heimilt að gera skyggni yfir inngöngum. „Leitast skal við að staðsetja húsin með bili á milli þeirra, eða það sem hentar skjólstæðingum, svo hvert og eitt þeirra hafi möguleika á skjólsælu og sólríku útisvæði,“ segir í kynningargögnum. Stefnt er að því að girða lóðina af á vestur- og suðurhlið til að veita skjól frá umferð.

Í athugasemd frá Kaffitári kemur fram að fyrirtækið eigi húseignina á Stórhöfða 17 þar sem séu tvö rými. Kaffihús sé rekið í einu rými en í hinu standi til að opna nýja verslun. Gerð er alvarleg athugasemd við fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi. „Að okkar mati gæti það rýrt verðgildi eignarinnar og haft truflandi áhrif á starfsemi kaffihússins,“ segir Guðrún Drífa Hólmgeirsdóttir fjármálastjóri í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert