Stjórn FFÍ fékk standandi lófaklapp félagsmanna

Frá fundi félagsmanna með stjórn FFÍ.
Frá fundi félagsmanna með stjórn FFÍ. mbl.is/Arnþór

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir mikla samstöðu vera á meðal félagsmanna. Stjórn FFÍ hefur fundað með félagsmönnum í dag og farið yfir stöðu mála. 

Vegna sóttvarnatakmarkana var hópnum skipt upp og voru 100 félagsmenn á hverjum fundi. 

„Við höfum verið að fara yfir stöðu mála í kjaraviðræðunum, yfir okkar síðasta tilboð og svokallað „lokatilboð“ Icelandair. Félagsmenn fengu kost á að spyrja spurninga og fá svör við þeim. Það sem við tökum frá þessum fundum er gífurleg samstaða og við finnum fyrir miklum meðbyr frá okkar fólki. Það styrkir trú okkar um að við séum að gera eitthvað rétt í þessum erfiðu aðstæðum,“ segir Guðlaug. 

Blaðamaður mbl.is var á svæðinu þegar fyrsti hópur félagsmanna mætti til fundar. Fundi lauk með dynjandi lófaklappi og er ljóst að flugfreyjur standa saman í viðræðunum. 

„Allir þrír fundirnir hafa endað þannig að fólk hefur staðið upp og klappað fyrir okkur. Ég túlka það þannig að fólk sé með því að sýna okkur þakklæti með þessu, þetta hefur komið eftir að við skýrum frá okkar sýn og því sem við erum að berjast fyrir.“

Aðspurð hvort hún hafi verið vör við það að einhverjir félagsmenn hefðu kosið að ganga við tilboði Icelandair segir Guðlaug svo ekki vera. 

„Ég get ekki svarað fyrir einstaka félagsmenn en þegar heilt er á litið er nokkuð ljóst að fólk hafi ekki áhuga á þessu.“

Guðlaugur segir kjaraviðræðurnar vera hjá ríkissáttarsemjara. „Við bíðum bara eftir kallinu.“

Aðspurð hvort verið sé að vinna að nýju tilboði segir hún samninganefndina vera að skoða stöðuna. 

„Við gerum hvað við getum og leitum allra leiða hvað varðar næstu skref. En það er ekkert fast í hendi.“

Fjórði og síðasti hópur félagsmanna mætti á fund stjórnar FFÍ klukkan 16. 

mbl.is