Umsögn sóttvarnalæknis ræður úrslitum

Svandís sagði ljóst að óvissuþættir væru margir.
Svandís sagði ljóst að óvissuþættir væru margir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðisráðherra segir það mikil tíðindi að gerlegt sé að skima komufarþega á landamærum Íslands og að ríkisstjórnin hafi, eftir að hún kynnti henni niðurstöður skýrslu verkefnisstjórnar um sýnatöku fyrir COVID-19 á landamærum, sammælst um að undirbúningi verði áframhaldið.

Hins vegar verði endanleg ákvörðun um það hvort raunverulega verði af áætlun ríkisstjórnarinnar um að opna landamærin með þessum skilyrðum 15. júní ekki tekin fyrr en sóttvarnalæknir hefur yfirfarið skýrsluna og skilað heilbrigðisráðherra sinni umsögn.

Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur í Kastljósi í kvöld. Þar sagði hún að til stæði að sóttvarnalæknir skilaði umsögn sinni um helgina og að því yrði það ekki fyrr en í byrjun næstu viku sem niðurstaða lægi fyrir.

Svandís sagði ljóst að óvissuþættir væru margir, en með skýrslunni fylgdi ítarleg lýsing á verkefninu með tímalínu sem miðaði við að öllum undirbúningi yrði lokið 15. júní. Eftir sem áður þyrftu stjórnvöld hins vegar að vera sveigjanleg, opin og auðmjúk enda geti forsendur breyst á hverjum degi.

Til skoðunar að semja við ÍE

Hvað framkvæmd sýnatökunnar varðar sagði Svandís að fyrir liggi að veirufræðideild Landspítalans treysti sér ekki til að greina nema 500 sýni á dag fyrst um sinn, en að til skoðunar væri að gera samkomulag við Íslenska erfðagreiningu.

Samkvæmt skýrslu verkefnisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að kostnaður við þetta verkefni geti numið 75 til 159 milljónum króna. Sagði Svandís að fyrst um sinn myndi allur kostnaður falla á ríkið, og benti á að inni í kostnaðarmatinu væru t.d. tækjakaup sem þyrfti hvort sem er að ráðast í til að auka afkastagetu veirufræðideildarinnar til framtíðar. Þá myndi kostnaður við sýnatökur hjá ferðamönnum að öllum líkindum fyrst um sinn verða greiddur úr ríkissjóði, en til greina kæmi svo að gera þeim sem hingað koma að greiða sjálfum fyrir sýnatöku, vilji þeir komast inn í landið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert