7% atvinnuleysi samkvæmt Hagstofu

Hagstofa Íslands.
Hagstofa Íslands. Ljósmynd/Hagstofa Íslands

Óleiðrétt atvinnuleysi mældist 7% í apríl samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands en líkt og fram hefur komið fór heildaratvinnu­leysi í 17,8% samanlagt, þ.e. 7,5% atvinnuleysi í almenna bótakerfinu og 10,3% vegna minnkaða starfs­hlutfallsins í apríl.

Atvinnuleysi jókst mjög mikið í aprílmánuði þegar flestir þeirra sem skráðu sig í minnkað starfshlutfall í kjölfar COVID-faraldursins, eða 33.637 manns alls, komu af fullum þunga inn í atvinnuleysistölur. Heildaratvinnu­leysi fór í 17,8% samanlagt, þ.e. 7,5% atvinnuleysi í almenna bótakerfinu og 10,3% vegna minnkaða starfs­hlutfallsins. Atvinnuleysið í almenna kerfinu jókst úr 5,7% í 7,5% og vegna minnkaða starfshlutfallsins úr 3,5% í 10,3% samkvæmt Vinnumálastofnun.

„Samkvæmt óleiðréttri mælingu vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar er áætlað að um 195.000 (± 6.300) manns á aldrinum 16–74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í apríl 2020, sem jafngildir 75,8% (±2,4) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu er áætlað að um 181.200 (±4.600) manns hafi verið starfandi, en 13.700 (±2.800) án vinnu og í atvinnuleit. Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 70,5% (±2,5) á meðan óleiðrétt atvinnuleysi mældist 7,0% (±1,4),“ segir á vef Hagstofu Íslands.

Aldrei færri unnar vinnustundir frá upphafi mælinga

Þá hafa óleiðréttar unnar vinnustundir aldrei mælst færri í sögu samfelldrar vinnumarkaðsrannsóknar frá 2003 eða um 34,8 stundir. Hið sama á við um mælingar á atvinnuþátttöku og hlutfalli starfandi sem hafa aldrei verið lægri síðan 2003.

„Þegar á heildina er litið eru áhrif COVID-19 á íslenskan vinnumarkað því greinileg í apríl. Óleiðréttar mælingar benda til þess að fjöldi utan vinnumarkaðar hafi aukist í apríl um leið og atvinnuleysi jókst og unnum stundum fækkaði. Samanburður við apríl 2019 leiðir í ljós að atvinnuleysi hefur aukist um 3 prósentustig milli ára en hlutfall starfandi lækkað um 8,8 prósentustig og atvinnuþátttaka um 6,8 prósentustig.

Fjöldi atvinnulausra í apríl var um 11.300 samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum eða 5,3% af vinnuaflinu. Árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka var 75,4% á meðan árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi var 70,2%. Árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka hefur lækkað um 5,1 prósentustig síðustu 6 mánuði en hlutfall starfandi dregist saman um 7,2 prósentustig,“ segir á vef Hagstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert