Segir Tripical sitja á milljónum útskriftarnema

„Við erum ekki með farmiða eða nein gögn, þau bara …
„Við erum ekki með farmiða eða nein gögn, þau bara sitja á peningunum okkar,“ segir Birta Björk. Ljósmynd/Aðsend

Útskriftarnemendur í Menntaskólanum við Sund (MS) hafa ekki fengið nein svör frá ferðaskrifstofunni Tripical síðan 2. apríl, að sögn útskriftarnema, en nemendurnir eiga pantaða ferð sem skrifstofan sér um sem á að fara í næstu viku. Nemendurnir eru um 150 talsins og hafði hver þeirra greitt 170-180 þúsund krónur fyrir ferðina. Því situr Tripical á að minnsta kosti 26 milljónum útskriftarnema MS, að sögn Birtu Bjarkar Haraldsdóttur útskriftarnema.

„Það er alveg augljóst að það er ekki hægt að fara til Krítar en þau [Tripical] hafa ekki haft samband við okkur síðan 2. apríl og þau vita alveg að við erum ekki að fara. Við erum ekki með farmiða eða nein gögn, þau bara sitja á peningunum okkar,“ segir Birta Björk. 

Útskriftarferðaráð hefur fengið mjög óskýr svör vegna málsins, en restin af nemendunum hefur ekki fengið nein svör, að sögn Birtu.

Skólayfirvöld í MS hafa sýnt vilja til að hjálpa nemunum …
Skólayfirvöld í MS hafa sýnt vilja til að hjálpa nemunum við að leita réttar síns vegna málsins. mbl.is/Árni Sæberg

Eigi rétt á endurgreiðslu samkvæmt lögum

Hún hefur verið í sambandi við Neytendastofu vegna málsins og bendir á að samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun eigi ferðamaður rétt á að fá allar greiðslur endurgreiddar ef ferð er afpöntuð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna innan fjórtán daga frá afpöntun. Þá segir þar einnig að tilkynna skuli ferðamanni tímanlega og með skýrum, greinargóðum og aðgengilegum hætti um allar breytingar sem verða á upplýsingum sem seljandi hefur sett fram. Tripical hefur sagt útskriftarferðaráði skólans að ferðin verði ekki farin, að sögn Birtu Bjarkar, en nemendur hafa ekki fengið neinar upplýsingar um slíkt.

„Eins og staðan er núna eigum við rétt á að fá ferðina endurgreidda,“ segir Birta Björk og bendir á að útskriftarnemar MS séu ekki þeir einu sem hafi ekki fengið endurgreitt frá Tripical. Þannig hafi útskriftarferð nemenda í Borgarholtsskóla verið aflýst 24. maí en ferðin átti að vera farin 25. maí. Í póstinum þar sem aflýsing var staðfest kom ekkert fram um að nemendurnir ættu rétt á endurgreiðslu, einungis að frumvarp sé í vinnslu sem heimilar ferðaskrifstofum að endurgreiða í formi inneignarnótna. 

Safnaði fyrir ferðinni allt síðasta sumar

Birta Björk segir að þeir nemendur sem hún hafi heyrt í hjá MS hafi engan áhuga á inneignarnótu í stað ferðar sem verður ekki farin. 

„Við viljum bara fá þetta endurgreitt og við viljum að ferðinni sé aflýst.“

Margir nemendanna hafa safnað fyrir ferðinni um langt skeið. „Við erum búin að vera að safna fyrir þessari ferð mjög lengi. Ég safnaði fyrir henni allt síðasta sumar og sumir eru búnir að vera með fjáraflanir og annað slíkt. Fjárhæðirnar sem þau sitja á eru mjög háar og það er óásættanlegt,“ segir Birta Björk.

Aðspurð segir Birta Björk að skólayfirvöld í MS hafi sýnt vilja til að hjálpa nemunum við að leita réttar síns vegna málsins en ekkert hafi gerst hingað til þar sem Tripical hafi ekki svarað póstum útskriftarnema um nokkurt skeið. 

Athugasemd barst frá Tripical vegna fréttarinnar: „Við hittum útskriftarnefnd á fundi 6. maí og var talað um að vera í sambandi í kringum 15. maí. Við vorum aftur í sambandi við þau 18. maí. Hugmyndin var að fylgjast með tilkynningu frá Grikklandi um ferðalög til Grikklands, hún átti að koma 15. maí en kom ekki fyrr en í síðustu viku. Við töluðum við ferðaráð MS í gær og í dag.“ 

Þá segir Tripical að fyrirtækið sitji ekki á neinum fjármunum.

„Við erum búin að greiða út til flugfélaga, hótela og annara birgja fyrir nokkrum mánuðum síðan en það verðum við alltaf að gera til að tryggja hótel, flug og fleira. Þessir aðilar neita að endurgreiða okkur og erum við því í miklum vanda.“

Þá telur ferðasskrifstofan að nemendurnir eigi ekki rétt á endurgreiðslu strax „þar sem ferðin þeirra á ekki að vera farin fyrr en 4. júní og þá höfum við 2 vikur til að endurgreiða þeim.“

mbl.is