Yfirlýsingarnar „víðáttufjarri hver annarri“

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, spurði á Alþingi í morgun hvernig á því stæði að yfirlýsingar um kostnað við skimun ferðamanna á Keflavíkurflugvelli væru svo ólíkar sem raun bæri vitni.

Í óundirbúinni fyrirspurn sem Þorsteinn beindi til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, benti hann á að ríkisstjórnin hefði tilkynnt heiminum að Ísland opnist 15. júní.

Ekkert samráð verið haft

„Og heimurinn er ekki vanur því að fá svona meldingar, eins og við höfum fengið hér á þinginu undanfarandi, og trúir þessu — að það muni opnast hér landið 15. júní.“

Spyrja verði þá hvaða áætlanir séu uppi.

„Það hefur komið fram að ekkert samráð var haft. Það eru nokkrir læknar búnir að stíga fram — höfðu ekki hugmynd um þetta. Smitsjúkdómalæknir kom fram núna í vikunni, yfirlæknir göngudeilar — þeir höfðu ekki hugmynd um þetta. Spurningin er: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að vinna þetta? Ætlar hún að vinna þetta í samstarfi við einhvern mann?“

Þorsteinn beindi tveimur spurningum til Bjarna.

„Hvert er planið með að opna landið 15. júní, og hvernig stendur á því að yfirlýsingar um kostnað af skimun á Keflavíkurflugvelli eru svona víðáttufjarri hver annarri? Það er að segja tölur sem við heyrðum í gærkvöldi frá virtum vísindamanni, og þær tölur sem ráðuneytið hefur lagt upp með.“

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólíkar forsendur gefi ólíkan kostnað

Bjarni sagði það að sjálfsögðu svo, að unnið hefði verið með „okkar færasta fólki“, þvert á mörg ráðuneyti.

Að baki ákvörðun um að opna landið liggi töluvert mikil vinna. Margar áskoranir og ein þeirra sé sú að ekki sé vitað nákvæmlega hversu margir koma. Það sé heljarmikið verkefni að skima mörg hundruð, jafnvel þúsund manns á dag.

Bjarni sagði áætlaðan kostnað á hvern ferðamann við skimun fara eftir því hvaða forsendur fólk gæfi sér hvað varðar fjölda þeirra sem kæmu til landsins. Þeim mun fleiri sem kæmu þeim mun minni væri kostnaðurinn, þar sem fastur kostnaður myndi þá deilast á fleiri.

Fái upplýsingar úr skimunum

„En það er auðvitað miklu áhugaverðari umræða að fara út í heldur en þessi, sem háttvirtur þingmaður býður upp á hér, að velta því fyrir sér hversu lengi eigum við að taka á okkur slíkan kostnað, og hversu mikill getur hann verið, til þess að aðgerðin sé réttlætanleg.“

Bjarni sagðist vera þeirrar skoðunar að „við séum á réttri braut. Við eigum að miða við að skima alla þá sem koma inn og sjá hvaða upplýsingar við fáum úr þeim skimunum til þess að taka síðan ákvarðanir í framhaldinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert