„Ekki gleyma að fylgjast með mér“

Umhverfisráðherra ávarpaði gesti í Laugardalslaug í dag.
Umhverfisráðherra ávarpaði gesti í Laugardalslaug í dag. mbl.is/Arnþór

„Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í ávarpi sínu í tilefni af setningu átaksins Ekki gleyma að fylgjast með mér í Laugardalslaug í dag.

Guðmundur Ingi sagði að með þessu ætti hann við tvennt — bæði mannslíf og sundlaugarnar sjálfar, sem opnaðar voru í síðustu viku eftir langa lokun vegna kórónuveirufaraldursins.

Tilgangur átaksins er að minna foreldra og forráðamenn barna í sundi á að fylgjast þurfi með börnunum því slysin geri ekki boð á undan sér. Sólveig Valgeirsdóttir, sem ávarpaði gesti fyrir hönd félags forstöðumanna sundstaða á Íslandi, segir það mjög algengt að fólk haldi að það sé hlutverk sundlaugarvarða að fylgjast með börnunum.

Þarf ekki nema sekúndu

„Það er hlutverk sundlaugarvarða að tryggja öryggi allra í lauginni. Þeir þurfa að hafa yfirsýn og geta ekki fylgst með hverju og einu barni,“ segir Sólveig. 

Sólveig segir í samtali við mbl.is að forstöðumenn sundlauga hafi barist lengi fyrir því að ráðast í átak sem þetta í samstarfi við Umhverfisstofnun. „Við erum búin að reyna að gera okkar úti í sundlaugunum en það þarf að vekja fólk betur til umhugsunar.“

„Því miður er það þannig að foreldrar eru gjarnan að slaka á í heita pottinum eða í sólbaði og börnin að leika sér. Það þarf ekki nema sekúndu svo þeir geti misst sjónar á þeim.“

Í tilefni átaksins verða plaköt sett upp í öllum sundlaugum landsins þar sem foreldrar, forráðamenn og aðrir sem fara með börnum í sund eru hvattir til að fylgjast betur með börnunum, auk þess sem farið verður í átak á samfélagsmiðlum til að minna á mikilvægi þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert