103 brautskráðust frá FG

Egill Andrason er dúx.
Egill Andrason er dúx. Ljósmynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Brautskráning í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ á vorönn fór fram í Urðarbrunni í gær aðeins að viðstöddum nemendum, helstu stjórnendum og tækniliði skólans. Alls voru 103 nemendu er sem kvöddu FG að þessu sinni, en af þeim voru 100 sem brautskráðust af stúdentsbrautum.

Egill Andrason af listnámsbraut var dúx, en hann var með 9,5 í meðaleinkunn. Alls voru sex nemendur í hópnum með yfir 9,0 í meðaleinkunn.

Hópurinn sem brautskráðist í gær er einn sá fjölmennasti í …
Hópurinn sem brautskráðist í gær er einn sá fjölmennasti í sögu skólans. Ljósmynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Kórónuveiran setti svip sinn á athöfnina, sem var send út beint á netinu fyrir aðstandendur. Kennarar biðu á kennarastofu skólans og fögnuðu síðan nemendum utandyra í lok athafnar. Þá máttu ættingjar líka taka á móti nýstúdentum, að því er segir í tilkynningu sem Gunnar Hólmsteínn Ársælsson, kennslustjóri samfélagsgreina FG, sendi. 

Í ræðu sinni fór Kristinn Þorsteinsson skólameistari yfir þessa sérkennilegu önn og þá staðreynd að fjöldi nemenda og kennara sýktist og lenti í sóttkví „ [...] enda viljum við í FG auðvitað vera mest og best í öllu, líka í Covid,“ sagði Kristinn í gamansömum tóni. Hann sagði einnig að kennarar FG hefði lært margt af þessum tíma.

Kristinn sagðist jafnframt vonast til þess að skólastarf yrði með eðlilegum hætti næsta haust, en eins og komið hefur fram í fréttum hafa nokkrir háskólar erlendis nú þegar tilkynnt að kennsla næsta haust verði einungis í fjarnámi.

Kátar stúdínur fyrir framan FG í gær.
Kátar stúdínur fyrir framan FG í gær. Ljósmynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert