„Orð án gjörða eru eins og líflaust hjarta“

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagðist ekki sjá betur en að …
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagðist ekki sjá betur en að Sjálfstæðisflokkurinn ráði ferðinni þegar kemur að framtíðarplönum ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fallegar ræður um jöfnuð og velferð skipta engu máli á meðan Sjálfstæðisflokknum er leyft að ráða ferðinni,“ sagði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

„Orð án gjörða eru eins og líflaust hjarta,“ sagði hún einnig og bætti því við að það væri átakanlegt að horfa upp á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar þegar kæmi að málaflokkum eins og nýsköpun, velferð og umhverfisvernd. Það væri takmarkað hversu mikið hægt væri að bjóða fólki upp á orð án aðgerða.

Hún beindi fyrirspurn sinni til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og spurði hvert framtíðarplan ríkisstjórnarinnar væri.

„Það er komin tími til að eiga lýðræðislegt og opið samtal við þjóðina um þá stefnu sem Ísland á að taka í framtíðinni. Því miður hefur ríkisstjórnin hingað til ekki sýnt nokkurn áhuga á slíku samtali og hefur púslað saman aðgerðum í lokuðum hópi ráðherra og hagsmunaaðila,“ sagði Halldóra.

Höfundur plansins sé Sjálfstæðisflokkurinn, eða hvað?

Velti hún því fyrir sér hvernig framtíð það myndi skapa ef fjármagn, sem verið er að nýta til að viðhalda „núverandi eignarhaldi á fyrirtækjum í gegnum uppsagnarleiðina“, væri nýtt til þess að byggja upp umhverfisvænan þekkingar- og nýsköpunargeira.

Sagði hún að stefna ríkisstjórnarinnar, ef einhverja stefnu væri yfir höfuð að finna, væri að setja fortíðina í hýði á kostnað almennings og veita núverandi eigendum fyrirtækja forskot á aðra þegar kemur að því að ferðaþjónustan nái fyrri hæðum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég get ekki betur séð en að fortíðin sé planið og höfundur þess sé Sjálfstæðisflokkurinn, eða hvað hæstvirtur forsætisráðherra?“ spurði hún.

Takmarkað hvaða orð er hægt að bjóða upp á

Forsætisráðherra sagðist vera sammála því að það væri takmarkað hvaða orð væri hægt að bjóða fólki upp á og sagði Halldóru eiga að velta því fyrir sér þegar hún talaði um líflaust hjarta, eins og í dramatískum dægurlagatexta, án þess að nefna raunveruleg dæmi.

Sagði hún að engin ríkisstjórn hefði gert meira í loftlagsmálum, að risastór skref hefðu verið stigin í jafnréttismálum og að breytingar hafi verið gerðar á skattkerfinu til að auka jöfnuð í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þá hafi fæðingarorlof verið lengt og að ríkisstjórnin væri að innleiða velsældaráherslur.

„Hér er verið að nefna gjörðirnar sem skipta máli en ekki orðskrúð sem mér finnst ekki einu sinni eiga heima í ræðustól þingsins,“ sagði hún við örlítinn fögnuð úr þingsalnum.

Katrín tók fram að ríkisstjórnin hafi undanfarið verið að ráðast í bráðaaðgerðir til að styðja íslenskt atvinnulíf og íslenskt launafólk. Hagsmunir þeirra færu að einhverju leyti saman.

Þá sagðist Katrín hafa það í hyggju að boða fund í útvíkkuðu þjóðhagsráði á næstu vikum þar sem fulltrúar atvinnulífs, sveitarfélaga og ríkis myndu setjast niður með formönnum allra flokka og ræða framtíðaráform fyrir íslenskt samfélag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert