Þúsundir bókana til Íslands

Breskir ferðamenn sem hingað koma á vegum TUi eru hrifnir …
Breskir ferðamenn sem hingað koma á vegum TUi eru hrifnir af Gullfossi og norðurljósum. mbl.is/Sigurður Bogi

Þúsundir breskra ferðamanna hafa nú þegar bókað sig í Íslandsferðir næsta vetur í gegnum bresk-þýsku ferðaskrifstofuna Tui, að sögn Hallgríms Lárussonar, framkvæmdastjóra Snælands Grímssonar, samstarfsaðila TUi hér á landi. TUi er stærsta ferðaskrifstofa í heimi og er með sitt eigið leiguflug frá Bretlandi til Íslands.

Eins og Hallgrímur útskýrir er sérstaða TUi sem viðskiptavinar sú að í gegnum skrifstofuna koma ferðamenn til Íslands yfir vetrartímann, á fjögurra til fimm mánaða tímabili. „Bretinn hefur mikinn áhuga á Íslandi á veturna út af norðurljósunum. Það er mjög vinsælt að koma hingað í 3-4 daga, upplifa Gullfoss, Geysi og Bláa lónið. Svo er bónus að sjá norðurljósin,“ segir hann.

Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag segir, að vöxtur hafi verið í komum hópa hingað til lands á vegum TUi síðustu ár. „Það hafa verið að koma á bilinu 12-14 þúsund ferðamenn frá þeim á hverjum vetri. Á síðasta ári var maður þó farinn að finna fyrir tregðu í sölu vegna hás gengis íslensku krónunnar. Verðlagið hér var orðið ofboðslega hátt af þeim sökum, og því var það farið að hafa áhrif á öllum okkar mörkuðum.“

Hallgrímur segist finna sterkt fyrir því hjá sínum viðskiptavinum erlendis að menn séu farnir að sjá til sólar. Mikið er farið að berast af fyrirspurnum frá ferðaskrifstofum erlendis sem verið hafa í viðskiptum við Snæland Grímsson, að sögn Hallgríms.

„Maður er orðinn hæfilega bjartsýnn hvað veturinn varðar, þó að auðvitað sé um samdrátt í sölu að ræða. Ég bind vonir við að það verði töluverð traffík hingað til lands í vetur.“ Segist hann m.a. finna fyrir mikilli óþreyju hjá viðskiptavinum sínum í Þýskalandi, einkum eftir að ferðatakmörkunum á ferðum til Íslands var lyft þar í landi.

„Staðráðnir í að koma“

Ferðamenn sem bókað hafa hestaferðir hjá Íshesti hafa áhuga á að standa við fyrirætlanir sínar og ferðast til Íslands í sumar, að sögn Erlu Vignisdóttur, sölu- og markaðsstjóra Íshesta. „Margir þeirra eru staðráðnir í að koma,“ sagði hún.

Vinsælustu ferðirnar eru 5 til 8 daga ferðir og hefur fyrirtækið verið í sambandi við fjölda erlendra kúnna, sem velta því fyrir sér hvernig sýnatöku á Keflavíkurflugvelli verði háttað. „Fólk er ekki alveg tilbúið að hætta við,“ sagði hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert