Vill ekki senda barnið sitt til Ítalíu

Ítalía opnaði landamæri sín í gær. Á sjötta tímanum í …
Ítalía opnaði landamæri sín í gær. Á sjötta tímanum í kvöld sendi Tripical útskriftarnemunum póst um að ferð þeirra yrði farin. AFP

„Sem foreldri er ég ekki hlynnt því að barnið mitt sé að fara til Ítalíu akkúrat núna og það er  eðlilegt. Það er búið að hvetja okkur til að vera heima og standa saman en ekki féfletta hvort annað,“ segir Birna Hrönn Sigurjónsdóttir, móðir útskriftarnema í Menntaskólanum á Akureyri. 

Ferðaskrifstofan Tripical hefur nú gefið nemunum minna en sólarhring til þess að ákveða hvort þau vilji halda útskriftarferð sinni til Ítalíu til streitu því fyrirtækið segir að ferðin verði farin nema of margir hætti við. Ferðin er áætluð 8. júní næstkomandi. 

Birna segir að ekkert hafi heyrst frá ferðaskrifstofunni um tíma og svo hafi pósturinn skyndilega verið sendur. Nemarnir hafi gengið mikið á eftir svörum til þessa en það rímar við reynslu útskriftarnema frá Menntaskólanum við Sund sem mbl.is ræddi við fyrir nokkru síðan og hafði átt í vandræðum hvað varðar samskipti við Tripical.

Vill endurgreiðslu

Í bréfi sem ferðaskrifstofan sendi nemunum fyrr í kvöld býður hún þeim nokkra aðra valkosti en enginn þeirra felur í sér fulla endurgreiðslu. Það er þó það sem Birna vill sjá. 

„Það sem ég óska mest er að þau fái endurgreitt þessi 200.000 sem þau eru búin að leggja inn. Dóttir mín er til dæmis á heimavist við erum búin að vera að reyna að fjármagna það og hún búin að vera ótrúlega dugleg að safna fyrir þessu og var að borga síðustu greiðsluna í raðgreiðslum bara í fyrradag.“

Fríi sig endurgreiðsluskyldu

Birna telur að ferðaskrifstofan sé með þessu að fría sig endurgreiðsluskyldu sinni þar sem augljóslega muni fáir vilja fara til Ítalíu nú á tímum heimsfaraldurs sem hefur farið sérstaklega hörðum höndum um Ítalíu. 

„Ég get ekki ímyndað mér að [einhverjir af útskriftarnemunum] ætli til Ítalíu. Ef það næst ekki í 175 manns þá eru þau eiginlega búin að fría sig ábyrgð,“ segir Birna en lágmarksfjöldi í ferðina er 175 manns. 

„Þetta eru bara krakkar sem eru svolítið berskjaldaðir. Ég hélt í alvörunni að við ætluðum að standa svolítið saman í þessu, stjórnvöld eru að reyna að mæta öllum sem eiga erfitt og við að standa við bakið á hvert öðru. Maður reynir að ala krakkana sína upp þannig að þau treysti og hjálpist að en svo er farið svona með þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert