Segjast ætla til Ítalíu með útskriftarnema

Menntaskólinn á Akureyri.
Menntaskólinn á Akureyri. mbl.is/Auðun Georg

Ferðaskrifstofan Tripical sendi útskriftarnemum Menntaskólans á Akureyri (MA) póst fyrr í kvöld þar sem þeim er gefinn minna en sólarhringur til að ákveða hvort þau séu tilbúin í að fara til Ítalíu þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveiru. Ítalía er það land sem hefur farið hvað verst út úr faraldrinum. 

Forsaga málsins er sú að útskriftarnemarnir áttu ferð til Ítalíu bókaða með Tripical 8. júní næstkomandi. Svo kom heimsfaraldurinn upp og nemarnir fóru að velta því fyrir sér hvort ferðin yrði farin. Að sögn móður útskriftarnema sem mbl.is ræddi við hafa nemarnir gengið mikið á eftir svörum frá ferðaskrifstofunni en ekkert hefur heyrst frá Tripical fyrr en í kvöld þegar umræddur póstur var sendur. Þar er vakin athylgi á því að Ítalía hafi nú opnað landamæri sín og því mögulegt að fara í ferðina. 

Bjóða ekki upp á endurgreiðslu

Ferð útskriftarnema MA til Ítalíu er enn þá bókuð og hefur hvorki verið breytt né aflýst. Því stendur ekkert í vegi fyrir því fara í umrædda ferð eins og hún var bókuð til Ítalíu þann 8. júní nk. Það er Tripical því ánægjuefni að tilkynna að ferðin verður farinn nema ef nemendur óska eftir breytingum á ferðinni. Athugið að lámarksfjöldi þarf að vera að minnsta kosti 175 manns“, segir í póstinum. 

Nemendum eru þó boðnir fjórir valkostir ef þeir treysta sér ekki til Ítalíu. Enginn þeirra kosta felur í sér fulla endurgreiðslu á þeim 200.000 krónum sem hver og einn nemi er búinn að greiða fyrir ferðina. 

Nemendum er boðið að fara í stað í ferð til Hellu, Ítalíu eða Krítar síðar í sumar, að fara heldur í útskriftarferð á næsta ári eða fá inneign hjá Tripical. Þá þurfa nemarnir að tilkynna ef þeir vilja einhverju breyta fyrir klukkan 14.00 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert