Segja stöðuna ríkisstjórninni til skammar

Heilbrigðisstarfsfólk á Landspítala. Myndin er úr safni.
Heilbrigðisstarfsfólk á Landspítala. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Síðustu mánuðir hafa sýnt á óyggjandi máta ótrúlega þrautseigju, fórnfýsi og dug þeirra sem starfa í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Öllum ætti að verða orðið ljóst hversu ómissandi störf hjúkrunarfræðinga og annars heilbrigðisstarfsfólks eru fyrir samfélagið.“ 

Svona hefst fréttatilkynning Pírata vegna stöðu hjúkrunarfræðinga sem samþykktu í dag að hefja ótímabundið verkfall 22. júní næstkomandi. 

„Það er til skammar fyrir ríkisstjórnina að hjúkrunarfræðingar hafi séð sig knúna til að boða til verkfalls. Vanþakklæti fjármálaráðherra og óbilgirni samninganefndar ríkisins hafa reyndar verið fyrir hendi í langan tíma, en að sjá ekki dug sinn í því að semja nú til dags, í kjölfar stærstu þolraunar íslensks heilbrigðiskerfis, er hreinlega neyðarlegt fyrir ríkisstjórnina“, segir í tilkynningunni. 

Hjúkrunarfræðingar í lykilstöðum

Píratar segjast styðja hjúkrunarfræðinga og samninganefnd þeirra og hvetja til forgangsröðunar fjármuna í þágu heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsfólks.

„Þannig tryggjum við framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir þá sem á henni þurfa að halda. Hjúkrunarfræðingar gegna þar lykilhlutverki. Góð kjör og góð starfsaðstaða hjúkrunarfræðinga er grundvallarforsenda fyrir góðu heilbrigðiskerfi. Hjúkrunarfræðingar eru grundvallarforsenda fyrir góðu heilbrigðiskerfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert