Sex flugfélög fljúga um Keflavíkurflugvöll

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/​Hari

Sex flugfélög hafa tilkynnt um áform sín um flugferðir um Keflavíkurflugvöll í sumar. Ungverska flugfélagið Wizz Air ríður á vaðið með ferð til flugvallarins London Luton í kvöld og staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, að flugið sé á áætlun.

Hann kveðst ekki hafa frekari upplýsingar um flugið.

Wizz Air hyggur einnig á flugferðir til Búdapest og Vínarborgar í byrjun júní en ekki liggur fyrir hvort framhald verður á því, að sögn Guðjóns.

Spurður hvort reglur um sóttkví verði í gildi segist hann gera ráð fyrir því að svo verði.

Hin flugfélögin sem ætla að fljúga frá Keflavík í sumar eru Atlantic Airways, Czech Airlines, Icelandair, SAS og Transavia, að því er kemur fram á vef Isavia.

Atlantic Airways mun fljúga þrísvar í viku til Færeyja, Czech Airlines flýgur frá Keflavík til Prag í Tékklandi tvisvar í viku frá 17. júní og mögulega mun flugferðunum fjölga í júlí ef eftirspurnin er næg.

Icelandair hefur auglýst ferðir til Kaupmannahafnar daglega frá 15. júní og einnig ætlar félagið að fljúga fjórum sinnum í viku til Amsterdam frá 16. júní.

SAS hefur flug til og frá Kaupmannahöfn 15. júní. Flogið verður fjórum sinnum í viku og Transavia hefur tilkynnt að það fljúgi þrisvar í viku frá Keflavíkurflugvelli til Amsterdam frá 19. júní.

Wizz Air hefur einnig ákveðið að hefja flug frá Keflavík til Mílanó á Ítalíu þrisvar í viku frá og með 3. júlí.

„Við erum tilbúin til að taka á móti þeim flugfélögum sem koma til okkar. Við erum viðbúin og fylgjum því sem lagt var upp af sóttvarnarlækni og yfirvöldum,“ segir Guðjón um stöðu mála.

Fjögur flugfélög hafa tilkynnt að þau ætli ekki að fljúga til Íslands í sumar, eða bandarísku flugfélögin American Airlines, Delta og United og kanadíska flugfélagið Air Canada.

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta- og þróunar hjá Isavia, segir á vef Isavia að flugfélög hafi sýnt áhuga á að fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli þegar tilkynnt var um skimun á vellinum. „Við höfum fundið mjög greinilega fyrir áhuga flugfélaga að byrja að fljúga hingað í framhaldi af þeirri tilkynningu,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert