Íslendingar mega gista í Köben í sumar

Landamæri Danmerkur verða opnuð 15. júní og hefst daglegt flug …
Landamæri Danmerkur verða opnuð 15. júní og hefst daglegt flug frá Keflavíkurflugvelli sama dag.

Ferðamönnum frá Íslandi, Þýskalandi og Noregi verður heimilt að gista um alla Danmörku eftir að landamæri ríkisins verða opnuð fyrir ferðamönnum frá umræddum löndum 15. júní. Frá þessu greindi Nick Hækkerup, dómsmálaráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi í dag.

Áður hafði verið gefið út að ekki væri heimilt að gista í Kaupmannahöfn og nágrannasveitarfélaginu Frederiksberg og ástæðan sögð fjöldi kórónuveirusmita á þessu þéttbýlasta svæði landsins. Enn verður þó gerð krafa um að ferðamenn gisti sex nætur hið minnsta í landinu en það mun vera til að koma í veg fyrir ferðamenn á leið í helgargistingu.

Tvær vikur eru frá því fyrri reglur voru tilkynntar en þeim hefur verið mótmælt af hörku, bæði á danska þinginu og einkum frá borgaryfirvöldum í Kaupmannahöfn. Þótti skjóta skökku við að ferðamönnum væri heimilt að ferðast til borgarinnar í dagsferðir, en ekki gista. Að sögn ráðherrans er sú gagnrýni meðal ástæðna stefnubreytingarinnar. „Síðan viljum við einnig taka tillit til ferðamannageirans,“ sagði ráðherrann.

DR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert