Megum fara til Köben en ekki gista

Íslendingar geta heimsótt Kaupmannahöfn frá miðjum næsta mánuði, en þeir …
Íslendingar geta heimsótt Kaupmannahöfn frá miðjum næsta mánuði, en þeir verða að finna sér annan næturstað. AFP

Áætlanir danskra stjórnvalda um að opna landamærin fyrir ferðamönnum frá Íslandi, Noregi og Þýskalandi 15. júní eru „varkárar og mjög góð lausn“. Þetta segir Allan Randrup Thomsen, prófessor í veirufræði í samtali við danska ríkisútvarpið. Danska ríkisstjórnin greindi frá áformunum í gær, og hefur Icelandair þegar boðað að stefnt sé að níu ferðum í viku til Kaupmannahafnar í sumar.

Ferðamenn sem koma til landsins þurfa að hlíta ýmsum reglum. Til að mynda verður ferðamönnum ekki heimilt að gista í Kaupmannahöfn og nágrannabænum Frederiksberg. Verður fólki ekki hleypt inn í landið nema það geti sýnt fram á að hafa bókað gistingu í að minnsta kosti sex nætur á hóteli, tjaldsvæði, sumarhúsi eða þvíumlíku utan höfuðborgarsvæðisins.

Ástæða þess að ekki má gista í Kaupmannahöfn er viðleitni danskra stjórnvalda til að dreifa ferðamönnum um landið og minnka þannig líkur á úbtreiðslu kórónuveirusmita. Flest smit í Danmörku hafa enda greinst í Kaupmannahöfn, þótt til séu sveitarfélög í landinu þar sem fleiri hafa smitast miðað við höfðatölu. Þá er sex daga reglan sett til að koma í veg fyrir helgarferðir til Danmerkur.

„Það má gjarnan ferðast til Kaupmannahafnar í dagsferð og borða á veitingastöðum, en fólk verður að gista annars staðar,“ sagði Magnus Heunicke heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi dönsku stjórnarinnar í gær.

Við komuna til landsins verður fólk hvatt til þess að fara í skimun, en þess verður þó ekki krafist. Greinist ferðamaður með kórónuveiruna verður honum skylt að fara í einangrun en þó ekki vísað úr landi. Hafi ferðamaður hins vegar sýnileg einkenni veirunnar við komuna til landsins verður honum ekki hleypt inn í landið.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi í gær þar sem …
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi í gær þar sem nýju reglurnar voru kynntar. AFP

Svíþjóð skilin eftir

Auk þess að heimila ferðir Íslendinga, Norðmanna og Þjóðverja til Danmerkur, verða löndin þrjú einnig tekin af lista danskra stjórnvalda um þau ríki sem Dönum er ráðið frá því að ferðast til. Þar verða, eftir breytinguna, öll önnur ríki heims, þar á meðal nágrannaríkið Svíþjóð. Mikillar gremju gætir meðal margra Svía vegna þeirrar ákvörðunar danskra að opna ekki landamærin að Svíþjóð, ekki síst meðal íbúa á Skáni í Suður-Svíþjóð þar sem fjölmargir ferðast í eðlilegu árferði á milli höfuðstaðarins Malmö og Kaupmannahafnar, hinum megin Eyrarsundsins, dag hvern vegna vinnu.

Fór Katrin Stjernfeld, borgarstjóri Malmö, hörðum orðum um ákvörðunina í samtali við TT. „Við erum stærsta atvinnusvæði Norðurlandanna og með ákvörðuninni um að opna ekki landamærin höfum við hindrun sem eyðileggur það.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert