Styður Katrínu Tönju alla leið

Annie Mist Þórisdóttir.
Annie Mist Þórisdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Annie Mist Þórisdóttir, tvöfaldur heimsmeistari í crossfit, styður ákvörðun Katrínar Tönju Davíðsdóttur um að segja skilið við íþróttina og taka ekki þátt í heimsleikunum í ár vegna rasískra ummæla eiganda vörumerkisins, Greg Glassman.

Annie er meðal þeirra fjölmörgu innan íþróttarinnar sem hafa gagnrýnt Glassman fyrir að gera lítið úr mótmælum gegn kynþáttafordómum sem spruttu upp eftir að lögreglumaður drap George Floyd í síðasta mánuði. 

Annie hafði sjálf gefið sæti sitt á leikunum efir enda ólétt og gengin sjö mánuði á leið. „En ég væri annars í sömu sporum og [Katrín],“ segir hún í samtali við mbl.is. Hún segir sterkar raddir innan crossfit-hreyfingarinnar berjast fyrir breytingum og gera þá kröfu að Glassman segi skilið við hreyfinguna. „Í ljósi alls sem er að koma fram núna skil ég hana vel, en auðvitað verður hver og einn að ákveða fyrir sig.“

Á upptöku, sem lekið hefur verið af fundi Glassman með háttsettum aðilum úr crossfit-heiminum, heyrist Glassman deila órökstuddum samsæriskenningum um dauða Floyds og kórónuveirufaraldurinn. Þá sagðist hann ekki syrgja Floyd. „Við syrgjum ekki Geroge Floyd. Ég held að hvorki ég né nokkur starfsmaður geri það,“ sagði Glassman.

Ummælin hafa dregið dilk á eftir sér. Fjöldi crossfit-stöðva hefur slitið samstarfi við hreyfinguna, auk þess sem Reebok, stærsti styrktaraðili heimsleikanna, hefur hætt stuðningi sínum.

Þótt Glassman hafi í kjölfarið sagt af sér sem forstjóri Crossfit, á hann enn allan hlut í fyrirtækinu, ræður því sem hann vill ráða og gæti hvenær sem er tekið aftur við stöðunni, segir Annie.

Meðal þeirra umbóta sem Annie telur nauðsynlegar er að skipuð verði hefðbundin stjórn í fyrirtækinu, auk sérstakrar stjórnar fyrir íþróttamenn (e. athlete board) þar sem íþróttamenn geti haft meiri aðkomu að ákvörðunum sem teknar eru innan hreyfingarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina