„Þetta sumar verður öðruvísi“

Már Másson, framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs Bláa lónsins, segir sumarið …
Már Másson, framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs Bláa lónsins, segir sumarið 2020 verða öðruvísi um gervallan ferðabransann. Már segir gríðarlega óvissu í loftinu, starfsfólkið voni það besta en sé um leið búið undir það versta. Ljósmynd/Aðsend

Bláa lónið opnaði dyr sínar á ný klukkan tólf á hádegi í dag eftir að hafa lokað 23. mars vegna kórónuveirufaraldursins. Már Másson, framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs Bláa lónsins, sagði mbl.is frá óvissutímum sem fram undan eru í sumar, ekki bara hjá honum og hans samstarfsfólki heldur öllum sem hafa sitt lifibrauð af ferðamönnum.

„Nú er allt að opna hjá okkur, ekki bara lónið sjálft heldur tvö hótel og fjórir veitingastaðir,“ segir Már.

Hann segir kórónuveiruna vissulega hafa sett strik í reikninginn en stjórnendur og starfsfólk Bláa lónsins hafi notað tímann sem lokað var til þess að sinna framkvæmdum og umbótum á staðnum.

„Við gerum okkur alveg ljóst að þetta sumar verður öðruvísi en við eigum að venjast en engu að síður erum við bjartsýn þegar til lengri tíma er litið,“ segir Már. „Það sem við erum að bjóða hér upp á er fyrst og fremst upplifun og það er gaman að segja frá því að við höfum fundið fyrir auknum áhuga Íslendinga á því sem lónið býður nú upp á. Hér gefst fólki kostur á að koma og gera vel við sig í mat og drykk og ekki síður að upplifa slökun á Retreat-hótelinu okkar þar sem við erum með neðanjarðarheilsulind sem er verðlaunuð hvort tveggja fyrir hönnun og upplifun,“ segir Már og bætir því við að gestum Retreat-hótelsins standi til boða að stunda jóga hvern morgun auk gönguferða upp á fjallið Þorbjörn og víðar, nokkuð sem ef til vill mætti líta á sem kærkomna flóttaleið frá veruleika síðustu fimm mánaða.

Áherslan á hágæðamat og -þjónustu

Óhætt er að segja að margt sé breytt í Bláa lóninu síðan á níunda áratugnum þegar eina aðstaðan á svæðinu, fyrir utan lónið sjálft, voru hrörlegir timburkofar til fataskipta og sá sem hér skrifar minnist þess að hafa heimsótt að minnsta kosti tvisvar sinnum á unglingsárum sínum. Þá var ekki einu sinni pylsuvagn innan seilingar, sjoppan í Grindavík var næsti griðastaður soltinna.

Vínkjallari veitingastaðarins Moss er höggvinn inn í ævafornt hraunið og …
Vínkjallari veitingastaðarins Moss er höggvinn inn í ævafornt hraunið og má þar finna vín frá flestum hornum heimsins. Már segir gesti gjarnan hefja heimsókn sína í vínkjallaranum. Ljósmynd/Aðsend

„Nýi veitingastaðurinn okkar, Moss, fékk til dæmis Michelin-viðurkenningu í fyrra og er í Michelin-bókinni fyrir 2020,“ segir Már og rífur blaðamann upp úr ljúfsárum æskuminningum sínum. „Þar leggjum við áherslu á hágæðamatargerð og -þjónustu auk þess að vera alltaf með ferska matvöru og að sjálfsögðu íslenska,“ segir Már. „Vínkjallarinn hjá okkur er höggvinn inn í eldfornt hraun og við höfum þetta þannig að gestir okkar hefji heimsóknina á að fara í kjallarann þar sem við erum með vín frá öllum heimshornum.“

Már er viðskiptamenntaður og starfaði hjá Glitni og Íslandsbanka áður en hann hóf störf hjá Bláa lóninu 2016. Fjögur ár þar hljóta þá að nægja Má til að geta tjáð sig um strauma og stefnur í ferðamannabransanum. Hvað telur hann að gerist núna eftir atburðarás síðustu mánaða?

„Nú er náttúrulega gríðarlega mikil óvissa í loftinu sem er auðvitað það sem hefur reynst fyrirtækjum erfiðast. En núna eru menn að fara af stað og taka varfærin skref í að opna landið og taka á móti gestum en það sem hefur gerst undanfarna mánuði er auðvitað gríðarleg áskorun fyrir okkar grein, ferðamennskuna. Auðvitað fer þetta alltaf upp og niður, við þekkjum það vel, en varðandi þetta sem gerðist núna, kórónuveiruna, höfum við Íslendingar náð mjög góðum árangri sem vakið hefur athygli á alþjóðavettvangi og nú þurfum við bara að bíða og sjá hvernig þetta fer af stað aftur,“ segir Már.

Vonast til að geta ráðið fólk á ný

Hvernig markaðssetur fyrirtæki á borð við Bláa lónið sig, hver er lykillinn að því að fá gesti í heimsókn?

„Við leggjum mikla áherslu á Bláa lónið sem upplifunarsvæði, við erum með mjög mikla nærveru á samfélagsmiðlum og nú er svo komið að okkar orðspor og okkar vörumerki er orðið mjög sterkt,“ útskýrir Már. „Mælikvarði sem við horfum mikið til er NPS, eða Net promoter score, það er eins konar meðmælavísitala og um leið mjög strangur kvarði og við mælum allar okkar einingar á þeim kvarða,“ segir Már og bætir því við að nú kalli breyttar markaðsaðstæður eðlilega á breyttar áherslur í rekstri sem laga þurfi að nýjum aðstæðum.

Anddyri Retreat-hótelsins, sem opnaði á páskadag, 1. apríl 2018, býður …
Anddyri Retreat-hótelsins, sem opnaði á páskadag, 1. apríl 2018, býður upp á útsýn yfir sjálft lónið. Ljósmynd/Aðsend

Í nýlegum fréttum var greint frá uppsögnum mörg hundruð starfsmanna Bláa lónsins. Sjá stjórnendur fram á að unnt verði að veita þessu fólki vinnu á ný með rísandi sól?

„Við lögðum upp með þá von að geta ráðið fólk aftur til starfa þegar óvissunni linnir og það er að sjálfsögðu okkar markmið. Við búum að því að vera með ótrúlega öflugan starfsmannahóp sem leggur sig allan fram við að þjóna okkar gestum og það hefur kannski komið einkar vel í ljós núna síðustu daga við undirbúning opnunarinnar, stemmningin í húsinu hefur verið alveg einstök. Allir leggjast á eitt,“ svarar Már og segir sterka einingu meðal starfsfólksins sem sé auðvitað ekkert annað en mikil auðlind fyrir fyrirtækið, ekki síst á ögurstundu svo sem nú hefur verið.

Ferðast innanlands í sumar

Hann segir næstu mánuði ráðast af því hvernig farsóttin þróist. „Við vonum það besta en erum líka búin undir það versta, þetta er hábjargræðistíðin hjá okkur sem er núna fram undan.“

Bjóða næstu mánuðir upp á eitthvert sumarfrí þá?

„Ég tek einhverja daga svona hingað og þangað en verð auðvitað með annan fótinn í vinnunni að fylgjast með framvindu mála í lóninu. Núna ferðast maður innanlands sem er auðvitað bara stórkostlegt, maður hefur í raun gert of lítið af því,“ segir Már sem er kvæntur tveggja barna faðir.

Retreat séð utan frá. Gestum bjóðast jógatímar að morgni og …
Retreat séð utan frá. Gestum bjóðast jógatímar að morgni og gönguferðir um nágrennið auk fleiri slökunarathafna. Kannski ekki vanþörf á í kjölfar þeirra atburða sem dunið hafa á heimsbyggðinni. Ljósmynd/Aðsend

Að lokum er forvitnilegt að heyra af því hvernig leið Más lá úr bankastofnun í hrauni gyrta heilsulind.

„Já, góð spurning,“ segir Már og hlær við. „Ég var náttúrulega búinn að vera í upplýsingamálum hjá Glitni og Íslandsbanka þar sem ég var líka töluvert mikið í stefnumótun og markaðsmálum. Ég var ráðinn til að leiða nýtt mannauðssvið hjá Bláa lóninu 2016 en núna hef ég stigið mun meira inn í sjálfan reksturinn og þannig lá leið mín í núverandi starf. Þetta er lifandi og mikið í gangi hér og ég er í miklum samskiptum við gestina. Bankinn er auðvitað mikið þjónustufyrirtæki líka og mikil áhersla lögð þar á þjónustu við viðskiptavini þannig að ég kem úr sterku þjónustufyrirtæki og fer í mjög sterkt upplifunarfyrirtæki, þetta voru engu að síður töluverð hamskipti,“ segir Már Másson, framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs Bláa lónsins sem í dag opnar á ný eftir vægast sagt sérstakt tímabil í heimssögunni.

mbl.is