Verkfall myndi skerða mikilvæga þjónustu

Óskar Reykdalsson er forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Óskar Reykdalsson er forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Lögreglan

Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segist hafa miklar áhyggjur yfir mögulegu verkfalli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og telur að það myndi hafa mikil áhrif á starf heilsugæslunnar.

Samningafundur í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkis hefur staðið yfir í dag, en ef ekki nást samningar um helgina munu hjúkrunarfræðingar fara í verkfall frá og með mánudegi.

Óskar segir að verkfallið myndi víðast hvar hafa áhrif á starfsemi heilsugæslunnar. Telur hann ólíklegt að hægt verði að halda úti ungbarnavernd eða hjúkrunarvakt á meðan verkfallinu stendur, auk þess muni heimahjúkrun verði unnin eftir neyðarplani. Einnig segir hann að þjónusta við aldraða, símaþjónusta hjúkrunarfræðinga, netspjall og þjónusta hjá geðheilsuteymum muni skerðast.

Heilsugæslan mun sækja um undanþágur til að geta haldið úti þjónustu sem talin er lífsnauðsynleg. Óskar segir að heilsugæslan undirbúi nú umsóknir um undanþágu, en það komi í ljós um helgina hvaða þjónusta krefjist slíkra aðgerða. Víst er að það muni innihalda neyðarþjónustu og þjónustu þar sem „líf og heilsa liggur við.“

„Við erum á þriðja tug eininga, og það er sama staða alls staðar. Það eru alls staðar hjúkrunarfræðingar, sem eru stór hluti starfsmanna. Þar af leiðandi hefur þetta áhrif á alla stafsemi okkar,“ segir Óskar.

mbl.is