Skoða að hætta skimun frá vissum löndum

Frá fundi almannavarna í dag.
Frá fundi almannavarna í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til skoðunar er að hætta landamæraskimun fyrir kórónuveirunni meðal farþega frá ákveðnum ríkjum. Frá þessu greindi Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi almannavarna á Höfðatorgi í dag.

Vika er í dag liðin frá því núverandi fyrirkomulag tók gildi og hafa á þeim tíma 7 þúsund manns komið til landsins. Þar af hafa 5.500 farið í skimun, en ætla má að það sem upp á vantar séu einkum börn, sem sleppa við skimun. Ellefu hafa greinst með veiruna, en þar af níu með gömul smit og mótefni og hafa þeir ekki þurft að fara í sóttkví. Því hafa aðeins tvö virk smit greinst á landamærunum. Þá hefur ekkert smit greinst innanlands frá 15. júní.

Hægt að taka við fleiri gestum

Sagði Þórólfur lítinn fjölda smita renna stoðum undir þá áætlun að endurskoða skimunarferlið þannig að hægt sé að undanskilja ákveðin lönd, en einbeita sér að þeim þar sem smit eru mörg. Þannig mætti einnig fjölga ferðum til landsins, en ekki er hægt að skima nema 2.000 manns á Keflavíkurflugvelli á degi hverjum og hefur fjöldi farþega um völlinn slagað upp í það síðustu daga. Aðspurður sagði Þórólfur þó að mögulegt væri að fjölga skimunum á vellinum, en þá þyrfti fleiri starfsmenn til og það væri vandkvæðum bundið einkum nú þegar sumarleyfistími er að hefjast.

Tíu sýnatökubásar bíða ferðamanna. Hægt er að afgreiða um 2.000 …
Tíu sýnatökubásar bíða ferðamanna. Hægt er að afgreiða um 2.000 manns á dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Von á upplýsingum eftir viku

Metfjöldi kórónuveirusmita hefur greinst í heiminum síðustu daga, þótt faraldurinn hafi verið á hraðri niðurleið í Evrópu. Spurður hvaða löndum þyrfti sérstaklega að fylgjast með, nefndi Þórólfur Bandaríkin, Brasilíu, Indland og Rússland. Hann sagðist þó ekki vilja nefna að svo stöddu hvaða ríki yrðu mögulega undanskilin skimun þegar fram líða stundir.

Þórólfur sagði tilgang skimunarinnar ekki síst að fá upplýsingar um dreifingu smita hjá ferðamönnum, en af því mætti draga upplýsingar um útbreiðslu milli ólíkra ríkja og hætta skimun frá ákveðnum svæðum. „Við teljum að með núverandi fyrirkomulagi munum við fá mjög verðmætar upplýsingar út úr skimuninni og getum hagað starfinu eftir því,“ sagði Þórólfur. Von er á skýrslu um niðurstöður sýnatökunnar á landamærum, en hún verður birt að viku liðinni, þegar tvær vikur eru frá því farið var að skima á landamærum Íslands.

Nýjar reglur um sóttkví eftir flugferðir

Nýjar reglur hafa tekið gildi um það hverjir þurfa að fara í sóttkví eftir að hafa verið í flugi með smituðum einstaklingi. Þær reglur eru, að sögn Þórólfs, í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar og koma til vegna aukinna varúðarráðstafana í flugi svo sem grímunotkunar.

Þórólfur sagði að ekki væri staðfest að nokkur hefði smitast um borð í flugvél, þótt grunur væri um einhver slík tilfelli á alþjóðavísu.

Á fundinum greindi Páll Þór­halls­son, verk­efn­is­stjóri í for­sæt­is­ráðuneyt­inu, sömuleiðis frá því að vegabréfaeftirliti á innri landamærum Schengen á Íslandi hefði verið hætt í dag. Landamæraverðir væru þó enn á staðnum og leiðbeindu farþegum um sóttvarnareglur og sýnatöku. 

mbl.is