Ákærður fyrir brot gegn konu og tveimur stúlkum

Héraðssaksóknari.
Héraðssaksóknari. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn einni konu og tveimur stúlkum undir 18 ára aldri.

Er hann ákærður fyrir að hafa áreitt konuna í fjölda skipta á sex ára tímabili. Þá er hann ákærður fyrir að hafa berað kynfæri sín fyrir 9 ára stúlku og í annað skiptið berað kynfæri sín fyrir 16 ára gamalli stúlku.

Málið var þingfest í vikunni í Héraðsdómi Reykjaness, en í ákæru málsins kemur fram að maðurinn hafi í fjölda skipta á árunum 2014-2019 brotið gegn konunni á heimili hennar og í bíl hennar. Er hann sagður hafa káfað á henni, meðal annars þuklað á lærum og brjóstum og viðhaft við hana kynferðislegt tal. Þá hafi hann einnig berað sig í eitt skipti á heimili hennar er hún kom inn í herbergi þar sem maðurinn hafði lagst til svefns. Er hann ákærður í þessum lið ákærunnar fyrir brot á 199. grein almennra hegningarlaga, en þau varða kynferðislega áreitni.

Þá er maðurinn sagður hafa berað kynfæri sín einu sinni þar sem hann var í aftursæti á bifreið með 9 ára stúlku. Er háttsemi hans sögð brot á bæði blygðunarsemisákvæði almennra hegningarlaga sem og barnaverndarlögum.

Maðurinn er jafnframt í ákærunni sagður hafa árið 2017 brotið gegn stúlku sem þá var 16 ára gömul með því að hafa berað kynfæri sín þar sem þau sátu saman í sófa og horðu á sjónvarp. Er brot hans sagt varða við bæði blygðunarsemisákvæði almennra hegningarlaga sem og barnaverndarlög.

Ákæruvaldið fer bæði fram á refsingu, en til vara að honum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Fyrir hönd 9 ára stúlkunnar er farið fram á 600 þúsund í miskabætur og þá fer konan einnig fram á 600 þúsund vegna meintra brota mannsins.

mbl.is