Líklegt að fjölga muni í sóttkví

Almannavarnir vilja einnig koma á framfæri þeim eindregnu tilmælum til …
Almannavarnir vilja einnig koma á framfæri þeim eindregnu tilmælum til Íslendinga sem snúa heim frá útlöndum, að þeir fari gætilega fyrst um sinn eftir heimkomu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Smitrakning stendur yfir vegna hugsanlegrar hópsýkingar á höfuðborgarsvæðinu. Miklum fjölda fólks hefur verið skipað í sóttkví og líklegt er að fjölga muni í þeim hópi, að því er segir í fréttatilkynningu frá almannavörnum.

Þar segir að eins og fram hafi komið í fjölmiðlum sé vitað um tvö innanlandssmit sem talið er að rekja megi til Íslendings sem talinn er hafa smitast í útlöndum en hafði ekki greinst við komuna til landsins.

„Mjög mikilvægt er að allir þeir sem fá boð um sóttkví hlíti því undanbragðalaust og fylgi öllum fyrirmælum í hvívetna. Þannig er hægt að minnka líkur á að hugsanleg hópsýking sem þessi leiði til víðtækari afleiðinga,“ segir í tilkynningu.

Fari gætilega fyrst um sinn eftir heimkomu

Þá er áréttað að þeir sem sæta 14 daga sóttkví vegna útsetningar fyrir smiti þurfi að ljúka henni jafnvel þó sýnataka á tímabilinu gefi neikvæða niðurstöðu.

Almannavarnir vilja einnig koma á framfæri þeim eindregnu tilmælum til Íslendinga sem snúa heim frá útlöndum, að þeir fari gætilega fyrst um sinn eftir heimkomu, taki ekki þátt í mannmörgum viðburðum, og takmarki samneyti við einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af COVID-19, svo sem aldrað fólk.“



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert