Með áverka á andliti eftir fall af hlaupahjóli

Lögreglu barst tilkynning um hjólaslys í miðbænum laust eftir miðnætti í nótt. Þar hafði maður fallið af hlaupahjóli og bar hann við ölvun. Maðurinn hlaut áverka á höfði, andliti, nefi og munni og var sjúkrabifreið kölluð á vettvang. Annar maður, farþegi á hjólinu, var með áverka á vinstri vanga, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Á fjórða tímanum í nótt var tilkynnt líkamsárás á Granda þar sem maður hafði verið sleginn í höfuðið með áhaldi. Árásaraðili var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins, en árásarþoli var fluttur á bráðadeild til aðhlynningar.

Fjórar bifreiðar voru stöðvaðar í nótt vegna gruns um akstur ökumanns undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Þá var tilkynnt um megna kannabislykt frá íbúð í Árbæ á tólfta tímanum. Afskipti voru höfð af ungri konu vegna vörslu fíkniefna.

mbl.is