Verið gerð glæpamenn af samfélaginu í 40 ár

Minnisvarði við Konukot til minningar um mann sem lést úr …
Minnisvarði við Konukot til minningar um mann sem lést úr ofskömmtun. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur Frú Ragnheiðar, þakkar flutningsmönnum frumvarps um afglæpavæðingu fíkniefna. Hún segir enga efnislega gagnrýni hafa komið fram á frumvarpið, sem var fellt á Alþingi í gær. 

„Í dag á ég að mæta til vinnu sem hjúkrunarfræðingur sem sinnir jaðarsettum einstaklingum sem nota vímuefni í æð. Ég þarf að tilkynna þeim að frumvarp til laga um afglæpavæðingu hafi verið fellt,“ skrifar Elísabet í færslu sína á Facebook. 

Frumvarp Pírata um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta fíkniefna var fellt áður en þingfundi var slitið á þriðja tímanum í nótt. 

Elísabet gagnrýndi það í færslu sinni á Facebook að stjórnarþingmenn hefðu ekki greitt atkvæði með frumvarpinu. 

Þessir einstaklingar hafa undanfarin 40 ár verið gerð glæpamenn af samfélaginu okkar. Glæpamenn fyrir það að hafa lent í alvarlegum áföllum og ánetjast vímuefnum í kjölfarið til þess að lifa af. Þegar það gerist lokar samfélagið öllum dyrum fyrir þeim, hleypir þeim hvergi að, gerir þau heimilislaus, handtekur þau og fangelsar. Þau þurfa að fjármagna neyslu sína á ólöglegan hátt sem veldur skaða fyrir þau og samfélag. Engin mannúð og þessi bann- og refsistefna hefur ekki sýnt neinn árangur, þvert á móti hafa dauðsföll vegna ofskammtana sjaldan verið hærri en nú,“ skrifar Elísabet. 

„Þegar ég tek þetta allt saman stenst ekkert af þessu sem ég, hjúkrunarfræðingur, hef lært um heilbrigðisþjónustu eða réttindi skjólstæðinga. Ég fylgist daglega með skjólstæðingum mínum þrauka í gegnum þetta líf og þessa stefnu og hef fylgst með sumum þeirra láta lífið eða enda það. Ég hef fylgst með fjölskyldum þeirra og örvæntingu þeirra vegna úrræðisleysis. Ég hef reynt að hugsa lausnamiðað til að koma til móts við þeirra þarfir í aðstæðum þar sem bannað er að finna lausnir,“ skrifar Elísabet og hvetur hjúkrunarfræðinga á Íslandi að reyna það sem í þeirra valdi stendur til að tala máli skjólstæðinga. 

 

 

Frú Ragn­heiður er verk­efni á veg­um Rauða kross­ins sem liðsinn­ir ein­stak­ling­um sem eru hús­næðis­laus­ir eða sem nota vímu­efni í æð. Þjón­usta Frú Ragn­heiðar er veitt í sér­út­bún­um bíl og á hverri vakt starfar hjúkr­un­ar­fræðing­ur og lækn­ir er á bakvakt. Ýmis heil­brigðisþjón­usta stend­ur til boða, svo sem al­menn heilsu­fars­skoðun og aðhlynn­ing. Einnig get­ur fólk sem not­ar vímu­efni um æð sótt sér hrein­ar nál­ar, spraut­ur o.fl. sem þarf til að draga úr lík­um á smiti og sýk­ing­um.

Frú Ragn­heiður er á ferðinni á milli klukk­an sex og níu á kvöld­in sex daga vik­unn­ar. Sími Frú Ragn­heiðar er 788 7123. Einnig er hægt að hafa sam­band við hjálp­arsíma Rauða kross­ins, 1717, og net­spjallið 1717.is. Þjálfaðir og reynslu­mikl­ir sjálf­boðaliðar eru þar til svara all­an sól­ar­hring­inn. Full­um trúnaði er heitið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert