Frumvarp Pírata um afglæpavæðingu fellt

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kvaðst ætla að halda áfram vinnu …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kvaðst ætla að halda áfram vinnu við undirbúning afglæpavæðingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingfundi var slitið á þriðja tímanum í nótt og kemur Alþingi næst saman í ágúst. Fjöldi þingmála var afgreiddur í gærkvöldi og í nótt.

Þar ber einna hæst að frumvarp Pírata um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta fíkniefna var fellt, en margir stjórnarþingmenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu og sögðu markmiðið göfugt en þyrfti frekari vinnu áður en það gæti orðið að lögum. Sagðist dómsmálaráðherra hjartanlega sammála því efnislega og kvaðst ætla að halda áfram þeirri vinnu sem til þyrfti í ráðuneytinu.

Þingmannafrumvarp um að fella almenna sálfræðiþjónustu og önnur viðtalsúrræði undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands var samþykkt, og verður slík þjónusta þá veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta.

Þá var samþykkt að stofnaður yrði ferðaábyrgðasjóður til að bregðast tímabundið við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á starfsemi ferðaskrifstofa og skipuleggjenda pakkaferða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert