Hæsti hiti í júní 24,2 stig

Meðalhiti í Reykjavík í júní var 10,2 stig og einu …
Meðalhiti í Reykjavík í júní var 10,2 stig og einu sinni fór hitinn yfir 20 stig í borginni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlýtt var á landinu í júní og tíð hagstæð. Hlýjast var á Norðausturlandi en tiltölulega svalara suðvestanlands. Hæst fór hitinn í 24,2 stig á Mörk í Landi 28. júní. Vindur og úrkoma voru víðast hvar nærri meðallagi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirliti Veðurstofu Íslands yfir tíðarfar í júní.

Hiti yfir meðallagi í Reykjavík og á Akureyri

Meðalhiti í Reykjavík í júní var 10,2 stig og er það 1,2 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 11,1 stig, 2,0 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 1,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 9,4 stig og 10,0 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Torfum í Eyjafirði 11,1 stig en lægstur 3,5 stig á Gagnheiði. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 6,4 stig í Seley.

Sem fyrr segir var hæsti hiti mánaðarins mældist 24,2 stig á Mörk. Mest frost í mánuðinum mældist -6,3 stig á Gagnheiði 6. júní. Mest frost í byggð mældist -4,6 stig á Reykjum í Fnjóskadal sama dag. 

Sólskinsstundir yfir meðallagi

Úrkoma í Reykjavík mældist 49,6 mm sem er rétt undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 31,1 mm sem er 10% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 54,8 mm og 113,2 mm á Höfn í Hornafirði.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 167,4 sem er 6,1 stund yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 222,4, sem er 45,8 stundum fleiri en í meðalári.

Meðalhiti fyrri hluta árs 3,7 stig

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu sex mánuði ársins var 3,7 stig sem er 0,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 39. sæti á lista 150 ára. 

Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna sex 3,1 stig. Það er 1,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en -0,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 29. sæti á lista 140 ára. Úrkoman hefur verið 17% umfram meðallag í Reykjavík, en 33% umfram meðallag á Akureyri.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert