„Baggi sem fer með og tekur líf fólks“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst taka smálánafyrirtæki til skoðunar.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst taka smálánafyrirtæki til skoðunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir smálán geta farið með líf fólks. Hann hyggst skoða rétt einstaklinga gagnvart smálánafyrirtækjum. 

„Smálán geta farið með líf fólks. Ég þekki dæmi þess að á nokkrum vikum, mesta lagi mánuðum, fer fjárhagur fólks úr því að vera þungur í það að verða óviðráðanlegur. Baggi sem fer með og tekur líf fólks,“ skrifar Ásmundur í færslu sinni á Facebook. 

Ásmundur segist nú hafa til skoðunar mál einstaklings sem tók rúmar 200.000 krónur í 11 smálánum, eða 20.000 krónur í hvert skipti. 

„Í dag, sex mánuðum síðar stendur skuldin í 615.000 krónum. Þessu til viðbótar er viðkomandi með um 200.000 kr. hjá öðru smálánafyrirtæki. Núna sex mánuðum síðar skuldar viðkomandi 803.000 krónur. Skuld sem er útilokað að hann geti greitt,“ skrifar Ásmundur. 

Ásmundur segist vilja vita hve margir séu að „glíma við ókleif skuldafjöll vegna margföldunar smáskulda sem bjóðast á Íslandi og ekki virðist möguleiki að stoppa“.

Standa vaktina 

Ásmundur biðlar til fylgjenda sinna á Facebook að deila með sér reynslusögum af smálánafyrirtækjum. Hann vilji láta reyna á hvort fólk eigi virkilega engan rétt. 

Einstaklingum sem enga möguleika eiga að greiða aftur þessi lán vegna lágra tekna er samt lánað og lánað þangað til allt er komið í skrúfuna og rúmlega það. Lánafyrirtækin hafa beinan aðgang að launareikningum viðkomandi í bönkum og í hvert sinn sem einhver peningur kemur inn standa smálánafyrirtækin vaktina og taka út allt sem inni er fyrir skuldum viðkomandi,“ skrifar Ásmundur.

mbl.is