Hafa aðstöðuna en ekki mannaflann

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Ljósmynd/Aðsend

„Ef við fáum einhverja beiðni metum við það hvernig við getum brugðist við,“ segir Sigurður Ingvarsson, forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, spurður út í þann möguleika að Keldur tækju við landamæraskimun af Íslenskri erfðagreiningu.

„Við fáumst fyrst og fremst við dýrasjúkdóma. Við erum ekki með neinn mannafla eins og Íslensk erfðagreining, erum með einhverja þrjá menn og svo róbot sem fást við þetta. Við ráðum ekki við neinar þúsundir eins og ÍE. Þetta er allt háð þeim höndum sem geta unnið verkið,“ segir Sigurður.

„Það má eiginlega segja að það sé staðan, við höfum aðstöðuna en ekki mannskapinn. Það má svo ekki vera með dýraveirusýni og mannaveirusýni á sömu rannsóknarstofu, en það má kannski endurskoða forgangsröðunina í heimsfaraldri.“

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á veirufræðideild Landspítalans og stjórnarformaður Keldna, sagði það í gær útilokað að veirufræðideildin taki við landamæraskimun á þriðjudag. 

Hann segir mögulegt að greina einhver sýni að Keldum, en að það væri ekkert eins og Íslensk erfðagreining hefur burði til. 

„Afkastagetan er ekki eins mikil þar, mér skilst að þau séu bara ekki undirbúin undir slíkan fjölda. Það þarf að kaupa hvarfefni og svona. Við værum kannski að tala um einhverja daga en ekki svona mikinn fjölda eins og ÍE hefur verið að taka, segir Karl. 

„Það er verið að fara yfir stöðuna, hve mikið sé til af hvarfefnum. Við vorum mjög ánægð með að Íslensk erfðagreining hafi boðist til að taka þessa skimun að sér á meðan við erum að efla afkastagetuna því að þau tryggðu sér það mikið af hvarfefnum sjálf.“

mbl.is