„Ekki drepa lúpínuna“

Birta Ísey Sigurðardóttir, Katrín Lísa Helgadóttir. og Fanney Lilja Sigurðardóttir …
Birta Ísey Sigurðardóttir, Katrín Lísa Helgadóttir. og Fanney Lilja Sigurðardóttir mótmæla slætti Kópavogsbæjar á lúpínunni. mbl.is/Árni Sæberg

Yngstu íbúar í Austurkór í Kópavogi eru síður en svo sáttir við ákvörðun bæjaryfirvalda um að slá lúpínuna sem sprettur á óbyggðu svæði ofan við byggðina og efndu þrjár ungar stúlkur, þær Birta Ísey Sigurðardóttir, Katrín Lísa Helgadóttir og Fanney Lilja Sigurðardóttir, til mótmæla af þessu tilefni síðdegis í dag.

„Þetta var leiksvæði. Þetta er ofboðslega gaman þarna og ofboðslega fallegt, við erum búin að eyða mörgum stundum þarna en nú er búið að rústa svæðinu. Það vill enginn hérna losna við þetta, það þykir þetta öllum mjög fallegt,“ segir Linda Dröfn Grétarsdóttir, móðir tveggja mótmælenda, í samtali við mbl.is.

„Við erum eiginlega bara svolítið súr. Þetta er aðallega leiksvæði barnanna, þau eru með leynistaði og allskonar dúllerí sem hægt er að gera.“

Stelpunum finnst mjög gaman að leika sér í lúpínunni.
Stelpunum finnst mjög gaman að leika sér í lúpínunni. mbl.is/Árni Sæberg

Linda segir að íbúar hverfisins hafi ekki vitað af því að til stæði að slá lúpínuna, en að hún hafi búið þarna í tvö ár og ekki hafi verið vegið að lúpínunni á svæðinu með þessum hætti áður.

„Við vissum ekki að þetta stæði til en það eru allri búnir að hringja og mótmæla þessu, en áfram héldu þeir. Við hröktum þá í burtu í dag, báðum þá að gera smá hlé þar til fundin yrði lausn á þessu.“

„Við erum ekki nógu ánægð með þetta. Lúpínan hefur verið hérna alveg til friðs. Við erum búin að vera hérna í tvö sumur og hún hefur ekkert dreift sér og þó svo hún gerði það væri það bara allt í lagi. Við elskum lúpínu.“

Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, segist í samtali við mbl.is ekki hafa fengið veður af málinu.

mbl.is