Rasísk skilaboð límd á bíl mæðgina

Miðinn sem límdur var á hliðarspegil bílsins.
Miðinn sem límdur var á hliðarspegil bílsins. Ljósmynd/Aðsend

„Já þetta var frekar óþægilegt og skrýtið,“ segir Magnús Secka, 19 ára gamall nemi, um rasísk skilaboð sem hann og móðir hans tóku eftir að límd höfðu verið á bíl þeirra á ferðalagi þeirra um Snæfellsnesið. Móðir hans Sara vakti athygli á málinu á Facebook og segir það „snarlasið“.

„IF YOU ARA BLACK OR BROWN: please leave this town,“ segir á miðanum sem límdur var hliðarspegil bílsins farþegamegin. Magnús segir að mæðginin hafi verið lengi að taka eftir miðanum og því viti þau ekki nákvæmlega hvar miðinn var settur á bílinn.

Tveir staðir koma helst til greina, annars vegar Vegamót á Snæfellsnesi og Búðir. Magnús telur líklegra að miðinn hafi verið límdur á á Vegamótum.

Ætla ekki að kæra til lögreglu

„Þetta er snarlasið og þegar maður fer að spá í því, mjög óþægilegt og ferlegt bókstaflega,“ skrifar Sara í færslunni. Ef athugasemdir við færsluna eru lesnar þá kemur greinilega í ljós að mörgum er ofboðið.

„Það þarf að berjast gegn þessu – share it,“ skrifar Sara einnig og eftir því hefur verið tekið. Tæplega 200 manns hafa deilt færslunni.

Mæðginin töldu rétt að vekja athygli á málinu en ætla ekki að kæra málið til lögreglu eða aðhafast frekar að svo komnu máli.

mbl.is