Hópsöfnun unglinga á höfuðborgarsvæðinu

mbl.is/Arnþór Birkisson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um hópsöfnun ungmenna á höfuðborgarsvæðinu á tíunda tímanum í gærkvöldi. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en ekki kemur fram hvar þetta var aðeins að þetta hafi verið í umdæmi lögreglustöðvar 3 sem sinnir Breiðholti og Kópavogi.

Í tilkynningunni kom fram að einhver ungmennanna væru vopnuð og undir áhrifum fíkniefna. Samkvæmt lögreglu fóru einhver ungmennanna strax af vettvangi þegar lögreglan kom á staðinn. Hún fylgdist með ungmennunum í nokkra stund og voru engin læti í þeim.

Rúmri klukkustund fyrr hafði verið tilkynnt um krakka uppá þaki Breiðholtsskóla en þegar lögregla kom á vettvang var enginn þar. 

Tveir gista fangageymslur lögreglunnar en annar þeirra var handtekinn fyrir heimilisofbeldi. Hinn fyrir tilraunir til innbrota og stuld á bifreið. 

Síðdegis í gær  var tilkynnt til lögreglu um veggjakrot á hús í miðborginni og um kvöldið var kvartað yfir áreiti frá betlara í miðborginni. Lögregla ræddi við manninn. Nokkrar tilkynningar bárust til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um hávaða og ónæði í gærkvöldi og nótt.

Ökumaður var stöðvaður í Breiðholti á tíunda tímanum í gærkvöldi grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna og akstur sviptur ökuréttindum. Ökumaður reyndi að ljúga til um hver hann væri. Hann var látinn laus að lokinni sýnatöku. Nokkrar tilkynningar komu inn á borð lögreglunnar um ökumenn sem líklega voru undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna.

Á áttunda tímanum í gærkvöldi féll maður af reiðhjóli í Garðabæ. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítalans en ekki er talið að meiðsl hans hafi verið alvarleg.

mbl.is