Unga fólkið í forgrunni á Ísafirði á sunnudaginn

Katrín Svala Ólafsdóttir og Dagur Ingason á ferð í ungdúró …
Katrín Svala Ólafsdóttir og Dagur Ingason á ferð í ungdúró brautinni. Ljósmynd/Heiða Jónsdóttir

Vinsældir fjallahjólreiða hafa vaxið mikið hér á landi að undanförnu og eru Vestfirðir þar engin undantekning. Fyrir ofan Ísafjörð hefur hjólreiðadeild Vestra komið upp fjölmörgum fjallahjólabrautum og um helgina fá börn og ungmenni þar góðan vettvang til að keppa í svokallaðri enduro keppni, eða ungduró, eins mótið er kallað.

Búast má við fjölmenni fjallahjólafólks á Vestfjörðum um helgina, en þar fer fram Íslandsmótið í maraþon fjallahjólreiðum. Þá verða fleiri hjólaviðburðir, en einnig fjöldi hlaupa og sjósundsviðburðum. Er þetta allt hluti af hlaupahátíð á Vestfjörðum.

Samhliða þessari miklu dagskrá stendur Vestri fyrir fyrrnefndu ungduró móti. Heiða Jónsdóttir, formaður hjólreiðadeildar Vestra, segir í samtali við mbl.is að mótið sé fyrst og fremst hugsað til að byggja upp barna- og unglingastarf í fjallahjólreiðum fyrir vestan, en að svo sé auðvitað alltaf gaman að sjá börn og ungmenni koma víðar af landinu. Segir hún að tímasetning mótsins passi vel við hlaupahátíðina og að tilvalið sé fyrir foreldra sem ætli sér að taka Vesturgötuna á laugardaginn að koma með börnin á Ísafjörð á sunnudaginn og skella sér í fjallahjólabrautirnar.

Sölvi Guðmundsson á ferð í Tungudalnum.
Sölvi Guðmundsson á ferð í Tungudalnum. Ljósmynd/Heiða Jónsdóttir

Heiða segir Vestfirði fullkominn stað fyrir fjallahjólreiðar, enda séu gamlir vegir upp á allar heiðar sem auðvelt sé að hjóla upp, svo séu stígar og brautir víða sem sé hægt að bruna niður. „Þetta er svo nálægt og það er allt fullt af tækifærum hér,“ segir hún. Hefur félagið undanfarið sett upp nokkrar brautir í Tungudal og alla leið upp á Botnsheiði.

Í ungdúró mótinu er keppt með sérleiðafyrirkomulagi og eru fjórar sérleiðir í boði að sögn Heiðu. Hún segir að eftir snjóþungan vetur sé enn einhver snjór á efstu stöðum sumra hjólaleiðanna, en það eigi þó ekki við um sérleiðirnar sem keppt sé í.

Embla Kleópatra Atladóttir tekur stökkið.
Embla Kleópatra Atladóttir tekur stökkið. Ljósmynd/Atli Þór Jakobsson

Enn sem komið er segir Heiða að börn og ungmenni fari út í fjallahjólreiðarnar í gegnum áhugasama foreldra, en hún segist eiga von á að það muni breytast fljótlega. Þannig hafi mikið starf verið hjá félaginu að draga börn og ungmenni á svæðinu út að hjóla og hún segist eiga von á því að mót sem þetta kveiki enn frekar í krökkunum. Þá hafi félagið verið með sumarnámskeið fyrir börn og ungmenni sem hafi notið vinsælda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert