Andlát: Margrét S. Einarsdóttir

Margét S. Einarsdóttir.
Margét S. Einarsdóttir.

Margrét Sigríður Einarsdóttir, fyrrverandi sjúkraliði og forstöðumaður, lést á Landspítalanum fimmtudaginn 16. júlí, 81 árs að aldri. Hún fæddist í Reykjavík 22. maí 1939 og voru foreldrar hennar Einar Guðmundsson, stórkaupmaður í Reykjavík, og Jóhanna K.S.A. Hallgrímsdóttir húsmóðir.

Margrét lauk landsprófi 1955 frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, námi frá húsmæðraskólanum á Laugum 1956 og Sjúkraliðaskóla Íslands 1981. Auk heimilis- og verslunarstarfa var hún móttökuritari á læknastofum á Laugavegi 42 og læknaritari á Heilsugæslustöðinni í Árbæ. Hún starfaði svo á Landakotsspítala uns hún tók við stöðu forstöðumanns við þjónustuíbúðir aldraðra á Dalbraut 27 árið 1985. Þar vann hún til starfsloka árið 2005.

Margrét var formaður kvenfélags Árbæjarsóknar 1968-1975, sat í stjórn hverfafélags sjálfstæðismanna í níu ár og í stjórn Hvatar í tólf ár. Hún var í stjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna í 10 ár og formaður þess 1978-1982. Margrét átti sæti í undirbúningsnefnd fyrir fyrsta kvennafrídaginn 1975. Sat í stjórn Kvenfélagasambands Íslands í tíu ár og í stjórn Kvenréttindafélags Íslands í sex ár, í stjórn Húsmæðrafélags Reykjavíkur í átta ár, í stjórn Sjúkraliðafélags Íslands í fjögur ár, þar af formaður 1984-1986, og varaformaður í stjórn heilbrigðisstétta 1983-1985. Hún var heiðursfélagi í Sjúkraliðafélagi Íslands.

Margrét var varaborgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1974-1986 og sat þá m.a. í heilbrigðisráði, félagsmálaráði, stjórn Borgarspítalans, stjórnarnefnd Vogs, leikvallanefnd og stjórn dagvistunar. Hún var fyrst kvenna formaður þjóðhátíðarnefndar Reykjavíkurborgar, átti sæti í sexmannanefnd búvöruverðs, sat í stjórn Sjúkrasamlags Reykjavíkur í 12 ár, þar af formaður stjórnar 1987-1990. Átti sæti í tryggingaráði og síðar Tryggingastofnun í áratugi og gegndi auk þess fjölda annarra trúnaðarstarfa.

Margrét giftist Atla Pálssyni 30. nóvember 1957. Synir þeirra eru Einar blikksmíðameistari, f. 5.6. 1958, d. 28.6. 2015, Hallgrímur blikksmíðameistari, f. 20.8. 1959, Guðjón framkvæmdastjóri, f. 1.8. 1964, og Atli viðskiptafræðingur, f. 8.10. 1966.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert