„Við létum undan þrýstingi“

Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands.
Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands. mbl.is/Hari

„Þetta er nú kannski ekkert voðalega skemmtilegt, það er öll ferðaþjónustan og allt í Vestmannaeyjum gargandi á okkur. Það er í ljósi þess kannski sem við ákváðum að fara í ákveðna vinnu með þeim Herjólfsmönnum sem á að vera lokið eftir fjórar vikur, skoða ákveðna þætti og gefa þessu smá andrými. Það var nú eiginlega málið.“

Þetta segir Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélags Íslands. Félagið hefur aflýst vinnustöðvun sem hefjast átti á miðnætti í kjölfar þess að samkomulag náðist um viðræðuáætlun.

Hljóðið í Jónasi er ekki sérlega gott þó mjakast hafi í samningsátt og vinnustöðvun hafi verið frestað. Um hefði verið að ræða þriðju vinnustöðvun undirmanna á Herjólfi og átti hún að standa í þrjá sólarhringa, en í síðasta verkfalli greip Herjólfur til þess ráðs að sigla Herjólfi III á meðan á verkfalli stóð og samkvæmt tilkynningum frá Herjólfi stóð til að gera slíkt aftur. Jónas segir það ekki hafa haft áhrif á ákvörðun Sjómannafélags Íslands.

Fundu til með ferðaþjónustunni

„Það er komin hreyfing á þetta, en þetta er nú svo asnalegt. Það þurfti að boða vinnustöðvun til þess að fá Herjólfsmenn til að tala við okkur, þeir hafa bara neitað því fram að þessu. Þetta var alveg ótrúleg framkoma af hendi útgerðarinnar,“ segir Jónas.

„Fólk verður að tala saman, en það var ekki í þessu tilfelli fyrr en það var boðuð vinnustöðvun. Það er bara leiðinlegt að þurfa að standa í því. Svo bara fann ég, ég er búinn að vera mikið í Vestmannaeyjum, okkar fólk og samninganefndin, við fundum til með ferðaþjónustunni í Vestmannaeyjum og það var kannski það sem ýtti okkur út í þetta. Við létum undan þrýstingi frá ferðaþjónustunni í Eyjum, til þess að gefa þessu smá andrými yfir háannatíma.“

mbl.is