Áframhaldandi óvissa í ferðaþjónustu

Ferðamenn á Hakinu horfa yfir Þingvelli. Mynd úr safni.
Ferðamenn á Hakinu horfa yfir Þingvelli. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þrátt fyrir blússandi umferð Íslendinga um landið, hafa forsvarsmenn ferðaþjónustunnar áhyggjur af ástandinu og segja innlenda eftirspurn einungis ná toppnum af þeim ísjaka sem starfsemin sé í heild sinni. Í samtali við mbl.is, tekur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, að mörgu leyti undir þær áhyggjur.

Þórdís telur af eðli máls og ytri aðstæðum, ástæðu til að hafa áhyggjur af komandi ferðaþjónustuvetri. Þar vegi óvissan þyngst. Hún bendir á að mörg ríki komi illa undan kórónuveirufaraldrinum í efnahagslegu tilliti. Margir hafi til að mynda misst vinnu sína, sem hafi áhrif á ferðagetu fólks og þar af leiðandi eftirspurn.

Einnig bendir hún á áhyggjur af annarri bylgju faraldursins sem geti sett strik í reikninginn. Þórdís nefnir sérstaklega Bandaríkin, sem sé sérstaklega mikilvægt markaðssvæði, sem komið hafi mjög illa út úr faraldrinum.

„Veturinn verður ekki sársaukalaus“

Þórdís segist hafa ferðast víða um land og tekið marga ferðaþjónustuaðila tali. Ljóst sé að Íslendingar eru mjög víða og eru duglegir að nýta innviði, þjónustu og gera almennt vel við sig. Hún bendir þó á að einhverjir kunni að selja þjónustu undir kostnaðarverði og því lítill eða enginn hagnaður af viðkomandi starfsemi. Ástandið sé þó örugglega skárra á landsbyggðinni, en höfuðborgin sé í lakari stöðu.

Aðalafkoma ferðaþjónustunnar er yfir sumarmánuðina, sem gjarnan heldur uppi starfsemi yfir vetrarmánuði. Þórdís þorir ekki að spá fyrir um gjaldþrot í greininni, en bendir á að fyrirtæki séu í mjög mismunandi stöðu til dæmis er varðar skuldir og fjárstyrk. „Veturinn verður ekki sársaukalaus,“ segir hún.

Aðspurð um stuðning stjórnvalda, segist hún vona að öll þau úrræði sem boðin hafa verið muni virka. Um frekari úrræði segir hún að „búið sé að birta útspil stjórnvalda og sértæk úrræði komin til framkvæmda“.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert