Grunnframfærsla enn of lág

Isabel Alejandra Diaz, forseti Stúdentaráðs.
Isabel Alejandra Diaz, forseti Stúdentaráðs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það eru stúdentum mikil vonbrigði að grunnframfærsla Menntasjóðs námsmanna (áður LÍN) hækki ekki að ráði milli ára. Þetta segir Isabel Alejandra Diaz, forseti Stúdentaráðs.

Grunnframfærslan er sú upphæð sem námsmenn geta fengið að láni í hverjum mánuði, en hún veltur á fjölskyldusamsetningu og því hvort námsmaður búi í foreldrahúsum eða á eigin vegum. Barnlaus námsmaður í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði fær samkvæmt reglunum 112.312 krónur á mánuði, en getur til viðbótar fengið 694.680 krónur á ári vegna húsnæðiskostnaðar. Samanlagt gerir það 170.212 krónur í framfærslu á mánuði.

Isabel segir að stúdentar hafi lengi bent á að grunnframfærslan sé of lág, en það er undir stjórn Menntasjóðsins að ákvaða hana með úthlutunarreglum. „Við vonuðumst til að það yrði gert, en svo var ekki. Það er mjög miður enda teljum við að neyðin sé mest akkúrat núna.“ Hún segir þó gleðiefni að ákveðið hafi verið að hækka frítekjumark þeirra sem snúa aftur í nám eftir að hafa verið á vinnumarkaði, úr þreföldu almennu frítekjumarki upp í fimmfalt. Það komi sé vel fyrir þá sem vilja snúa aftur í nám, en á meðan sé ekkert gert fyrir stúdenta sem hafa verið í námi síðastliðið ár. „Þeir hafa í raun ekkert öryggisnet.“

Styrkur en hærri vextir

Á dögunum tóku gildi ný lög um lánasjóð stúdenta, sem í leiðinni fékk hið nýja nafn Menntasjóður námsmanna. Meðal helstu breytinga var að 30% námslána hjá þeim sem útskrifast á réttum tíma breytast nú í styrk við námslok.

Önnur breyting, sem minna fór fyrir, var að vextir á námslánum hækka til muna. Í stað fastra vaxta upp á 1% eru vextir nú breytilegir og miðast við vaxtakjör ríkisins að viðbættu föstu 0,8% vaxtaálagi. Athygli vakti að hvorki ráðuneytinu né Menntasjóð þótti ástæða til að nefna þessa breytingu þegar „helstu breytingar“ hins nýja fyrirkomulags voru tíundaðar í tilkynningu. 

Stjórnarráðið sér ekki ástæðu til að nefna margföldun á vaxtakjörum …
Stjórnarráðið sér ekki ástæðu til að nefna margföldun á vaxtakjörum námsmanna sem ein af helstu nýmælum hins nýja fyrirkomulags. Listinn var að vísu aðeins lengri en sést á myndinni, en inniheldur þó ekkert um vexti. Skjáskot/Stjórnarráðið

Spurð hvort hægt sé að slá því föstu að nýtt fyrirkomulag komi námsmönnum betur en hið fyrra, segir Isabel svo ekki vera. Það verði tíminn að leiða í ljós, enda séu vextirnir á nýju lánunum breytilegir. 

„Okkur fannst þessi breyting ekki vera nóg. Við erum hlynnt þessari norrænu hugmyndafræði um styrkja- og hvatakerfi, en grunnhugsunin í [núverandi] kerfi er að það eigi að vera sjálfbært og því í raun ekki fjárfesting í menntun,“ segir Isabel.

Hún segir að þegar litið sé til kostnaðar við styrkjakerfi þurfi að skoða heildarmyndina. Þannig hafi stúdentaráð reiknað út að bætt styrkjakerfi geti skilað ríkissjóði allt að þremur milljörðum króna á ári enda yrði það til þess að námsmenn þyrftu síður að vinna með námi, brottfall minnkaði og fleiri útskrifuðust á réttum tíma með tilheyrandi sparnaði innan skólakerfisins og fjölgun fólks í fullu starfi á vinnumarkaði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert