Er í lagi að fara út á land?

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir það sleppa að fara í bústað …
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir það sleppa að fara í bústað eða á einkalóð úti á landi um helgina. mbl.is/Árni Sæberg

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn mælir gegn því að fólk fari í tjaldferðalag um helgina en segir í lagi að fara á einkalóð með vinum, eins og í sumarbústað. 

„Það er kannski besta valið að vera heima en við erum ekki að ganga eins langt og um páskana þegar við mæltum með því að fólk héldi sig alfarið heima,“ segir Víðir við mbl.is. 

Á tjaldstæðum er augljóst að flókið verður að hafa í heiðri þær hertu sóttvarnareglur sem taka gildi í hádeginu á morgun, annars vegar að fleiri en 100 megi ekki koma saman og hins vegar að tveir metrar þurfi að vera á milli fólks, ella skuli það nota grímu.

Það er því í ströngum skilningi í lagi að fara út á land um helgina en hver og einn verður að gera upp við sig hvort í ferðalagi hans felist mikil samskipti við margt fólk eða hvort þetta verði rólyndisferð upp í sumarbústað með nánum, eins og Víðir segir að sé í lagi. 

Ráðstafanir geta dregist á langinn

Hertar ráðstafanir eru sagðar gilda til 13. ágúst og endast þannig í tvær vikur frá gildistöku. Þetta er mun skemmri tími en aðrar ráðstafanir hafa varað, en Víðir segir þó raunhæft að á þessum skamma tíma verði náð utan um hópsýkinguna.

„Þetta eru í raun tvær sviðsmyndir. Sú fyrri er að við munum á þessum skamma tíma ná utan um þetta mál og ná að stoppa sýkinguna sem er í gangi. Það verður þá búið 13. ágúst. Sú seinni er að það sé eitthvað kraumandi þarna úti sem við erum hrædd um að við séum ekki enn farin að sjá. Það mun þá búa til nýjar aðstæður og þá þarf að framlengja ráðstafanir eða breyta þeim,“ segir Víðir. „Og eins og við höfum sagt erum við óhrædd við að leggja til nýjar reglur.“

Ná tökum á ástandinu fyrir skóla

Spurningin um skólahald þegar líður á ágúst verður æ meira aðkallandi. Í vor þurftu mennta- og háskólar að loka alveg og grunnskólar að hluta. Um miðbik mánaðar eiga þessar stofnanir að opna og í samræmi við það sem Víðir segir hér að ofan, telur hann að hægt sé að ná tökum á ástandinu í tæka tíð fyrir skólabyrjun.

„Við erum ekki farin að ræða skólana enn þá en við stefnum að því að áður en þeir byrja séum við búin að ná tökum á þessu. Þá getum við komið í kring umhverfi sem skólarnir geta skipulagt sig í,“ segir Víðir.

Gríma í ferjum og innanlandsflugi

Grímuskylda í rýmum þar sem tveggja metra reglu verður ekki við komið er nýtt fyrirkomulag sem vekur upp ýmsar spurningar. Víðir leggur áherslu á að þar sé fyrst og fremst verið að miða við ferjur og innanlandsflug, þar sem fólk þarf að sitja í talsverðan tíma innan um annað fólk án þess að geta fært sig um stað. 

Það er þó grímuskylda í Strætó, ásamt því sem hárgreiðslustofur og nuddstofur þurfa að hlíta skyldunni ef þörf er á. Komið hafa fram sjónarmið á þá leið að rekstraraðilar þar sem þessar aðstæður skapast skuli sjálfir útvega grímurnar.

Væntanlegar eru frekari skýringar á grímuskyldunni. Þetta segir nú þegar í minnisblaði sóttvarnalæknis:

„Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli ótengdra einstaklinga með fjöldatakmörkun verði krafist notkunar andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur, og starfsemi, s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur. Andlitsgrímur sem notaðar eru utan heilbrigðisþjónustu ættu að lágmarki að uppfylla kröfur sem fram koma í vinnustofusamþykkt evrópsku staðlasamtakanna CEN.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert