Tilmæli eða fyrirmæli?

Ólafur segir félagið hafa beint spurningum til stjórnvalda um skilyrði …
Ólafur segir félagið hafa beint spurningum til stjórnvalda um skilyrði fyrir aðstoð vegna takmarkana. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum pínulítið hugsi yfir þessu orðalagi,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, um þær aðgerðir stjórnvalda sem kynntar voru á blaðamannafundi fyrr í dag.

„Ólíkt því sem var í vetur og vor, þegar skýr fyrirmæli komu frá stjórnvöldum um hvernig bregðast skyldi við útbreiðslu faraldursins og að ákveðinni starfsemi bæri að loka, þá eru þær aðgerðir sem beinast að hugsanlegri lokun fyrirtækja nú að mestu einungis settar fram sem tillögur sóttvarnalæknis,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Til dæmis má taka eftirfarandi orðalag í þeim aðgerðalista sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt:

„Sótt­varna­lækn­ir legg­ur til að söfn, skemmti­staðir og aðrir op­in­ber­ir staðir geri hlé á starf­semi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eft­ir fjölda­tak­mörk­un eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 2 metr­um.“

Fyrirtæki átt í vanda með að fá styrki

„Þetta er svolítið óskýrt og í kjölfarið vakna spurningar um réttarstöðu fyrirtækja,“ segir Ólafur og bendir á að þegar hafi komið upp vafaatriði um lokunarstyrkina svokölluðu, þ.e. styrki stjórnvalda sem ætlaðir eru þeim fyrirtækjum sem neyddust til að loka sökum sóttvarnaaðgerða í vor.

„Við höfum séð að fyrirtæki sem lokuðu vegna fjöldatakmarkana hafa átt í vandræðum með að fá styrkina,“ bætir hann við og tekur sem dæmi fyrirtæki sem sinna þjálfun og fræðslu fyrir fleiri en tuttugu manns.

„Enginn flötur var á því að skipta niður í minni hópa og því voru fyrirmæli stjórnvalda túlkuð á þann veg að þeim bæri einfaldlega að gera hlé á starfseminni. Svo hafa þau komið að lokuðum dyrum þegar reynt var að sækja um styrkina.“

Fyrirtæki sem gerðu hlé á starfsemi sinni vegna tveggja metra reglunnar svokölluðu hafi aftur á móti átt auðveldara með að sækja sömu styrki.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend

„Þarf að liggja fyrir sem allra fyrst“

Ólafur segir Félag atvinnurekenda hafa beint spurningum til stjórnvalda um hvort skilyrði fyrir aðstoð á borð við lokunarstyrki og stuðningslán verði útvíkkuð fyrir þau fyrirtæki sem nú í þessari bylgju muni þurfa að loka sinni starfsemi tímabundið.

„Það þarf í fyrsta lagi að vera skýrara hvort um er að ræða tilmæli eða fyrirmæli stjórnvalda, og í öðru lagi þarf að liggja fyrir sem allra fyrst hvort og þá hvernig stjórnvöld hyggjast koma til móts við fyrirtæki sem geta neyðst til að loka starfsemi sinni tímabundið.“

„Við skiljum að þessa útfærslu á hertum aðgerðum þurfti að vinna hratt, en sömuleiðis þarf að vinna hratt í að færa út hvernig stjórnvöld hyggjast koma til móts við þau fyrirtæki sem hugsanlega neyðast til að loka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert