Ekki tímabært að herða aðgerðir

Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller á fundinum í …
Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller á fundinum í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að enginn sé nú inniliggjandi á sjúkrahúsi vegna kórónuveirunnar. 

Fram kom á upplýsingafundi almannavarna í dag að alls hafa 89 greinst með veiruna frá því smit tóku að greinast innanlands aftur og eru smit staðsett í öllum landshlutum. Þórólfur segir að ekki sé útbreitt smit í samfélaginu þó að ákveðin tegund veirunnar hafi verið að greinast. 

Þórólfur segir að enn séum við ekki að sjá nýjar tegundir veirunnar hér á landi, en næstu dagar og vikur muni leiða í ljós hvort þær aðgerðir sem gripið hafi verið til í síðustu viku hafi skilað árangri. 

Hann segir þá bylgju sem er í gangi núna líkjast mjög fyrstu bylgju veirunnar í vetur. Hann segir ekki tímabært að herða aðgerðir, en unnið sé að tillögum um að hvort tveggja herða aðgerðir og slaka á þeim. Næstu dagar muni leiða framhaldið í ljós. 

Þórólfur segir að alls hafi um 111.000 farþegar komið til landsins frá 15. júní og 71.000 sýni hafi verið tekin. 27 hafa greinst með virkt smit sem bendir til þess að ekki sé mikið um virk smit á landamærum. 

Þórólfur segir að Íslensk erfðagreining hafi skimað um 4.000 einstaklinga í tengslum við hópsýkingar undanfarna daga en aðeins þrír hafa greinst með veiruna. Það bendir til þess að ekki sé útbreitt smit í samfélaginu. 

Þá segir Þórólfur að verið sé að skoða að breyta fyrirkomulagi landamæraskimunar, en tillögu hans til stjórnvalda sé að vænta síðar í dag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina