Versló vonast til að fá undanþágu

Verzlunarskóli Íslands.
Verzlunarskóli Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enn er óljóst með hvaða hætti skólahald hefst á þessu skólaári en ljóst má vera af fréttum undanfarið að kapp verður lagt á að skólar taki til starfa að nýju að loknu sumarleyfi. Öll áform Verzlunarskólans lúta að því að kennsla muni hefjast samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 18. ágúst. 

Þetta kemur fram í frétt á vef Verzlunarskólans. Þar segir að óskastaðan sé vitanlega sú að framhaldsskólar fái sambærilega undanþágu frá reglum um fjöldatakmarkanir og grunnskólar. Þá gæti skólahald hafist með nokkuð eðlilegum hætti, með ríka áherslu á sóttvarnir og hreinlæti.

Komi til þess að skólum verði gert að loka húsnæði sínu mun kennsla færast yfir í fjarnám líkt og í vor. Þriðji möguleikinn er að blanda saman staðnámi og fjarnámi innan þeirra takmarkana sem landsmönnum er gert að fara eftir á hverjum tíma. Verið er að skoða mögulegar útfærslur á slíku fyrirkomulagi. Verði niðurstaðan sambland af fjarnámi og staðnámi mun áhersla verða lögð á að nýnemar hafi forgang inn í skólann, a.m.k. fyrstu vikurnar,“ segir á vef skólans.

Líkt og með annað skólahald mun nýnemakynningin sem fyrirhuguð er mánudaginn 17. ágúst taka mið af þeim reglum um sóttvarnir sem skólanum verður gert að hlíta. Nýnemar eru því beðnir um að fylgjast með fréttum á heimasíðu skólans. Þá eru nemendur hvattir til að fylgjast með upplýsingafundum almannavarna og fréttum næstu daga.

mbl.is

Bloggað um fréttina