Keppa í umhverfisvænum gagnalausnum

Tilgangur keppninnar er að stuðla að sýnileika opinberra gagna sem …
Tilgangur keppninnar er að stuðla að sýnileika opinberra gagna sem og að vinna umhverfisvænar lausnir í gagnavinnslu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Á miðvikudag mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra setja nýsköpunarkeppnina Gagnþon fyrir Umhverfið í setningarathöfn sem sjónvarpað  verður í beinni útsendingu á facebook. Öll keppnin mun fara fram rafrænt vegna kórónuveirunnar.

Tilgangur keppninnar er að ýta undir sýnileika opinberra gagna og vinna að umhverfisvænum lausnum í gagnavinnslu. Keppnin er haldin af nýsköpunarmiðstöð í samstarfi við fjármálaráðuneytið.

Um 100 keppendur á öllum aldri hafa skráð sig til leiks og verður keppt í þremur flokkum. Sigurvegarar í flokknum „besta gagnaverkefnið“ geta unnið 750.000kr. peningaverðlaun. Enn er opið fyrir skráningar á hakkathon.is. 

Kristjana Björk Barðdal hjá nýsköpunarmiðstöð Íslands, segir í samtali við mbl.is að mikill áhugi sé fyrir keppninni. Kórónuveiran hafi engin áhrif á framkvæmd keppninnar enda séu þau hjá nýsköpunarmiðstöð í góðri æfingu.

„Við héldum Hack the Crisis Ísland hakkaþon í maí en sú keppni var alfarið rafræn. Við erum því bara spennt fyrir því að gera þetta aftur,“ segir Kristjana við blaðamann mbl.is. Kristjana bætir við að enga tölvunarfræðikunnáttu þurfi til þess að skrá sig til leiks. „Allir geta verið með og allir geta unnið"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert