„Ýmislegt jákvætt í spilunum“

Víðir ásamt Ölmu Möller landlækni á stöðufundi fyrir upplýsingafundinn í …
Víðir ásamt Ölmu Möller landlækni á stöðufundi fyrir upplýsingafundinn í dag. Ljósmynd/Lögreglan

„Það er margt sem bendir til þess að við séum að ná ákveðinni stjórn á þessari bylgju faraldursins,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á blaðamannafundi almannavarna í dag.

„Það munu auðvitað greinast einhverjir einstaklingar áfram, og næstu dagar skera endanlega úr um það, og það eru líklega einhverjir þarna úti sem við höfum ekki fundið og eru ekki í sóttkví þannig að við þurfum að vera búin undir það,“ sagði hann og bætti við:

„Látum það ekki slá okkur út af laginu, þó það hafi verið enginn [nýgreindur smitaður] í dag, að það greinist einstaklingar áfram næstu dagana.“

Endurskoðun á næstu sjö til fjórtán dögum

Víðir sagði það líta út fyrir að grunn- og leikskólar muni geta tekið nánast eðlilega til starfa í haust.

„Framhalds- og háskólarnir munu geta starfað opnari en þeir gátu í vor. Það er verið að létta dálítið miðað við það. Íþróttastarfið er að fara aftur í gang og við munum sjá endurskoðun á öðrum takmörkunum á næstu sjö til fjórtán dögum, þannig það er ýmislegt jákvætt í spilunum.

Þetta er fyrst og fremst að þakka þessum fjölmörgu sem hafa tekið þátt í þessu með okkur síðustu dagana, fylgt leiðbeiningunum og hjálpað öðrum að gera það, og margir, mjög margir – langflestir, unnið mjög flott starf í því,“ sagði hann.

Víðir benti á að veiran væri enn óvinurinn.
Víðir benti á að veiran væri enn óvinurinn. Ljósmynd/Lögreglan

Ekki hægt að setjast í hægindastólinn

„En þó svo að við séum að boða einhverjar tilslakanir hérna þá er það ekki þannig að við getum bara sest aftur í hægindastólinn að slaka á. Það gilda áfram, og munu gilda áfram svo lengi sem þessi veira er í samfélaginu, einstaklingsbundnar smitvarnir sem ganga út á það að þvo sér um hendurnar, að spritta á sér hendurnar, þvo sameiginlega snertifleti, vera í ekki of stórum hópum, halda þessari fjarlægð sem er í gildi,“ sagði Víðir.

„Tveir metrarnir eru grunnreglan í því. Og vera heima ef við erum með einhver einkenni. Og ef við erum með einkenni, tala við lækni, fara í sýnatöku og þangað til við fáum niðurstöðurnar úr sýnatökunni þá höldum við okkur í einangrun. Við erum ekkert að þvælast um og látum það ekkert koma okkur á óvart ef við erum jákvæð, ef við erum með einkenni.“

Hann tók fram að veiran væri enn óvinurinn og því væri viðbúið að fara þyrfti fram og til baka með aðgerðir og tilslakanir til að bregðast hratt við þróuninni.

„Við þurfum að tala saman. Við þurfum að passa upp á hvort annað. Við þurfum að nota tímann núna til að hringja í vini eða ættingja sem við höfum ekki heyrt í lengi. Við getum þetta, við höfum gert þetta og við gerum þetta saman. Þetta verður áfram í okkar höndum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert