Laus úr öndunarvél

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á fundi dagsins. Í bakgrunn er nýtt …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á fundi dagsins. Í bakgrunn er nýtt plakat sem prýðir fundarherbergið í Katrínartúni. Ljósmynd/Lögreglan

Maðurinn sem hefur verið í öndunarvél á görgæslu Landspítalans síðustu daga er laus úr öndunarvél og kominn af gjörgæslu. Dvelur hann nú á almennri deild og er sá eini sem dvelur á sjúkrahúsi vegna veirunnar. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi almannavarna í dag.

Sex smit voru greind innanlands í gær, öll á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, fimm á höfuðborgarsvæðinu og eitt í Vestmannaeyjum. Áður hafði verið talað um tvö smit í Eyjum en eitt þeirra greindist eftir miðnætti og verður því talið með tölum dagsins í dag, sem birtast á morgun.

Þórólfur vakti á fundinum athygl á þeim mikla fjölda sýna sem sýkla- og veirufræðideildin hefði tekið eða 695. Margir hafi leitað til heilsugæslu og talið sig finna fyrir einkennum COVID-19 en sem fyrr segir aðeins sex, eða 0,9 prósent, verið smitaðir. Það telur Þórólfur til marks um að aðrar pestir séu farnar að ganga eins og hefðbundið er þegar haustið nálgast.

Að lifa með veirunni er ekki uppgjöf

Þórólfur gerði að umtalsefni orð sín um að landsmenn þyrftu að „lifa með veirunni“ um einhvern tíma. Einhverjir hefðu túlkað sem svo að það þýddi að veirunni yrði einfaldlega leyft að ganga en svo sé alls ekki. „Að lifa með veirunni þýðir að lifa með sýkingum af hennar völdum en einnig að lifa með þeim ráðstöfunum sem við þurfum að grípa til.“

Ítrekaði Þórólfur fyrri orð sín um að landsmenn gætu þurft að lifa með veirunni næstu mánuði eða jafnvel lengur. Því þyrfti stöðugleika í aðgerðum yfirvalda, og ekki bæri að herða og slaka á aðgerðum í sífellu, nema brýna nauðsyn beri til. „Því tel ég nauðsynlegt að slaka hægt og sígandi á aðgerðum og reyna þannig að skapa stöðugleika,“ sagði Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert