Ákærður fyrir að henda konu fram af svölum

Árásin átti sér stað í Hrafnhólum í Breiðholti.
Árásin átti sér stað í Hrafnhólum í Breiðholti. mbl.is/Golli

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært fertugan karlmann fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa hent konu á þrítugsaldri fram af svölum íbúðar sinnar á 2. hæð í Hólahverfi í Breiðholti í september árið 2019.

Konan hlaut heilahristing, blæðingar og bólgur undir húð í andliti ásamt skurðum yfir kjálka vinstra megin, brot á tveimur stöðum í neðri kjálka, brot í kinnholu í efri kjálka, brot á mjaðmabeini auk þess sem tennur brotnuðu.

Maðurinn var handtekinn af lögreglu á staðnum og var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Greint var frá því að hann hefði rofið skilorðsbundinn dóm.

Krafist er þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Konan gerir einkaréttarkröfu og krefst þess að maðurinn greiði henni rúmar 7,5 milljónir króna í skaðabætur.

mbl.is