Fölsk neikvæðni líklegri en fölsk jákvæðni

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla og veirufræðideildar Landspítalans.
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla og veirufræðideildar Landspítalans. mbl.is/Árni Sæberg

Mun líklegra er að fólk fái falskar neikvæðar niðurstöður úr sýnatöku vegna kórónuveiru en jákvæðar, að sögn Karls G. Kristinssonar, yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Hann segir hverfandi líkur á að fólk fái falskar jákvæðar niðurstöður úr prófum sem tekin eru vegna kórónuveirusmita.

Tilefni samtals Karls og blaðamanns er atvik sem kom upp á Ísafirði þar sem íbúi í þjónustuíbúð greindist smitaður á laugardag en greindist ekki með mótefni og fékk nokkrum dögum síðar neikvæðar niðurstöður úr seinni sýnatöku. Sá er nú á leið í þriðju sýnatökuna. 

„Það er ekkert hægt að fullyrða að viðkomandi sé ekki smitaður vegna þess að ef viðkomandi er lágt jákvæður í fyrra skiptið getur það þýtt að viðkomandi hafi kannski fengið sýkingu í vor og það sé lítið eftir af veirunni. Það eru ekki allir sem mynda mótefni svo þó það sé ekki til staðar útilokar það ekki sýkinguna,“ segir Karl.

Grípa frekar til aðgerða en ekki

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, sagði í samtali við mbl.is í gær að ástæðan fyrir því að annað sýni hafi verið tekið þrátt fyrir að íbúinn hafi greinst smitaður í fyrstu sýnatöku væri sú að mótefnamæling sem viðkomandi fór í hafi sýnt neikvæðar niðurstöður og enginn í innsta hring þess smitaða hafi greinst með veiruna. Aðgerðir vegna smits­ins hafa áhrif á stór­an hóp fólks, að sögn Gylfa.

„Ef það er ein­hver minnsti vafi um að það sé þörf á því öllu sam­an þá er eðli­legt að það sé gerð mót­efna­mæl­ing og annað sýni og nú á að taka þriðja sýnið,“ sagði Gylfi. 

Karl segir að yfirleitt sé frekar gripið til aðgerða en ekki, þó vafi sé um að smit sé til staðar. 

„Við höfum yfiirleitt tekið þá afstöðu að vera frekar varkár en hitt varðandi að setja fólk í sóttkví. Það er mjög erfitt að vera viss um það hvort einhver fölsk jákvæð próf hafi greinst eða ekki og ef svo er þá eru þau hverfandi fá.“

Í höndum viðkomandi læknis

Spurður hvort líklegra sé að fólk fái falskar neikvæðar niðurstöður en jákvæðar segir Karl: 

„Það er mun líklegra að fá falskt neikvætt en jákvætt. Það tengist meira sjúkdómnum sjálfum heldur en prófinu. Þetta eru mjög næm próf en aftur á móti getur verið erfitt að ná veirunni, hún er ekki alltaf til staðar og er í mismiklu magni eftir því á hvaða stigi sjúkdómurinn er.“

Karl segir „enga þumalfingursreglu“ ráða því hvort fólk sé sett í fleiri sýnatökur eftir að það greinist með veiruna. 

„Þetta er í höndum þess læknis sem sér um viðkomandi einstakling. Hann metur það hvort hann telji greininguna vera rétta eða ekki hvort hann telji þörf á [fleiri sýnatökum] eða ekki. Ef menn eru ekki í vafa þá er mjög algengt að sýnataka sé endurtekin, sama hvort fyrsta sýnið sé neikvætt eða jákvætt.“

Yfirlæknir á COVID-19-göngudeild Landspítalans sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að sýni séu tekin hjá fólki þar til læknar séu sannfærðir um niðurstöður þeirra og í einu tilviki hafi einstaklingur undirgengist fimm sýnatökur. Einkenni hans reyndust að lokum orsakast af annarri veiru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert